Hoppa yfir valmynd

RÚV þarf ekki að greiða Vodafone fyrir flutning á dagskrá

Tungumál EN
Heim

RÚV þarf ekki að greiða Vodafone fyrir flutning á dagskrá

7. júní 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2012 varðandi beiðni Fjarskipta ehf. (Vodafone) um íhlutun PFS til að kostnaðargreina flutning félagsins á dagskrárefni RÚV á fjarskipaneti sínu á sínu, sbr. 47. gr. fjölmiðlalaga. RÚV taldi sér ekki skylt að greiða fyrir flutninginn þar sem félagið hafði ekki óskað eftir slíkum flutningi.

PFS kemst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur, á grundvelli 47. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, til að stofnunin ákvarði endurgjald RÚV fyrir flutning Vodafone á sjónvarpsútsendingum RÚV á dreifikerfi sínu þar sem ekki hefur verið óskað eftir slíkum flutningi af hálfu RÚV, sbr. 44. gr. fjölmiðlalaga.

Í ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að við túlkun flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæða nýrra fjölmiðlalaga verði að beita þröngri lögskýringu.  Út frá skýrum ákvæðum laganna, lögskýringargögnum og almennum lögskýringarsjónarmiðum verði ekki annað talið en að beiðni verði að koma fram af hálfu þess sem óskar aðgangs að dreifikerfi eða efni, svo að til greiðsluskyldu geti komið á grundvelli laganna. Ákvæðin séu sjálfstæð í beitingu en ekki svo samofin að til greina komi að aðili geti krafist endurgjalds án þess að fyrir liggi ósk um slíkt frá gagnaðila líkt og málatilbúnaður Vodafone byggir m.a. á.

Þá kemst PFS að þeirri niðurstöðu að krafa 46. gr. fjölmiðlalaga um jafnræði við gerð og framkvæmd samninga fyrir flutning sjónvarpsútsendinga, skv. flutningsskyldu- og flutningsréttarákvæðum laganna, verði ekki túlkuð með þeim hætti að hún ryðji úr vegi skýrri kröfu framangreindra ákvæða um að beiðni um flutning verði að koma fram af hálfu greiðsluskylds aðila.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 19/2012 - Beiðni Fjarskipta ehf. um íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli 47. gr. laga, nr. 38/2011, um fjölmiðla

 

Til baka