Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á talsímamörkuðum

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á talsímamörkuðum

26. júní 2012

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum.

Um er að ræða markað 2 (upphaf) og markað 3 (lúkning) í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008 og markað 10 (flutningur) í eldri tilmælum frá 2004. Umræddir markaðir voru síðast greindir með ákvörðun PFS nr. 29/2008 frá 4. desember 2008. Þá var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á öllum mörkuðunum og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið. Þá var Vodafone einnig útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk á lúkningarmarkaði og viðeigandi kvaðir lagðar á félagið.

Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í talsímanetum (markaður 2). Á markaði fyrir lúkningu símtala í talsímanetum (markaður 3) er það fyrirhuguð niðurstaða PFS að Síminn og Vodafone séu ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk, ásamt því sem Nova, Símafélagið og Hringdu bætast við. PFS hefur í hyggju að mæla svo fyrir að hámarks lúkningarverð allra fyrirtækjanna skuli orðið jafnt lúkningarverði Símans þann 1. janúar 2013.

Þar sem heildsölumarkaður fyrir flutning símtala í talsímanetum (markaður 10 í eldri tilmælum) er ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2008 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort hann uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Það er frumniðurstaða PFS að ekki séu lengur fyrir hendi verulegar aðgangshindranir á viðkomandi markaði. Stofnunin hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi markaði að 6 mánuðum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 13. ágúst n.k. 

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson (ragnar(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjöl:

Sjá einnig um markaðsgreiningu hér á vefnum.

 

 

Til baka