Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS vegna kvörtunar um gjaldfærslu fyrir reikiþjónustu

Tungumál EN
Heim
27. júní 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 10/2013, vegna kvörtunar um gjaldfærslu Hringdu ehf. fyrir reikiþjónustu. Kvartað var til stofnunarinnar vegna reiknings sem kvartanda barst frá fyrirtækinu fyrir notkun á reikigagnaþjónustu í Svíþjóð.  Taldi hann m.a. að Hringdu væri ekki stætt á að gjaldfæra fyrir umrædda notkun þar sem gjaldfært hefði verið samkvæmt rangri gjaldskrá. Auk þess hefði honum ekki borist tilkynning frá félaginu með upplýsingum um reikiverð við utanför sína, eins og kveðið er á um í 15. gr. reglugerðar ESB um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Bandalagsins, en sú reglugerð gildir einnig fyrir Íslendinga í gegn um EES samninginn.

Fór kvartandi m.a. fram á að Hringdu myndi fella niður allan reikninginn og að verðskrá fyrirtækisins yrði aðlöguð í samræmi við þau verð sem reglugerð um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins kveður á um. Ennfremur fór kvartandi fram á að PFS tæki afstöðu til þess hvort að ákvæði reglugerðarinnar um tilkynningar fjarskiptafyrirtækja til reikiviðskiptavina væri einungis leiðbeiningarregla, eða hvort um væri að ræða skyldu fyrirtækjanna gagnvart viðskiptavinum sínum.

Í ákvörðun sinni kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Hringdu hafi brotið gegn 15. gr. fyrrgreindrar reglugerðar EB nr. 531/2012, um hámarksverð til neytenda á farsímanotkun innan evrópska efnahagssvæðisins með því að senda ekki sjálfvirk skilaboð til kvartanda með grunnupplýsingum um gjöld fyrir veitingu reikigagnaþjónustu.

Telur stofnunin ennfremur að Hringdu hafi brotið gegn 13. gr. sömu reglugerðar með því að gjaldfæra kvartanda samkvæmt annarri verðskrá en þeirri sem reglugerð EB mælir fyrir um.

PFS kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að sú krafa kvartanda um að Hringdu hafi verið óheimilt að gjaldfæra kvartanda fyrir reikiþjónustu vegna brots á fyrrnefndri upplýsingaskyldu eigi sér ekki stoð í reglugerðinni né fjarskiptalögum og var henni af þeim sökum hafnað.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 10/2013 vegna kvörtunar um gjaldfærslu Hringdu ehf. fyrir reikiþjónustu (PDF)

 

Til baka