Hoppa yfir valmynd

Úttekt á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum

Tungumál EN
Heim
19. júlí 2010

 

Þann 1. júlí 2010 tóku gildi ákvæði reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins sem gengur enn lengra en fyrri reglugerð um sama efni frá árinu 2008. Helstu nýmæli eru þau að sett er hámarksverð, € 0,15, á SMS smáskilaboð auk þess sem fjarskiptafyrirtækjum er gert að upplýsa neytendur um gjaldskrá fyrir gagnatengingar og setja sjálfvirkt hámark á reikigagnaþjónustu. Samkvæmt reglugerðinni er einnig óheimilt að innheimta gjald fyrir að taka á móti talhólfsskilaboðum. Auk þess er verð fyrir símtöl sem hringd eru í reikiþjónustu innan EES-svæðisins lækkuð úr € 0,46 í € 0,39 og heildsöluverð á reikigagnaþjónustu í farsíma eða með 3G nettengli úr € 1 í € 0,8 fyrir hvert MB. Þá er farsímafyrirtækjum einnig gert skylt að breyta tímamælingum símtala í farsíma milli landana þannig að fyrst er leyfilegt að taka gjald fyrir 30 sekúndna lágmarksnotkun og síðan skal taka gjald fyrir hverja sekúndu eftir það.

Kostnaður við símtöl milli landa getur verið afar hár og hefur oft verið erfitt fyrir neytendur að fylgjast með verðlagningu þeirra. Í október 2008 tók gildi á Íslandi reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki innan EES-svæðisins sem hafði það markmið að tryggja að notendur almennra farsímaneta á ferðalagi innan EES-svæðisins greiði ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum í farsímaþjónustu.

Þann 1. júlí 2010 tók síðan gildi ákvæði reglugerðar nr. 183/2010 um breytingar á reglugerð nr. 1046/2008 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins sem gengur enn lengra í þessum efnum. Í reglugerðinni er vikið að allmörgum atriðum sem fyrirtækjum á farsímamarkaði er gert skylt að uppfylla og gildir hún bæði um samskipti á milli fjarskiptafyrirtækjanna, þ.e. á heildsölumarkaði, sem og varðandi ýmsa þjónustu sem fyrirtækjum er gert skylt að veita notendum þjónustunnar, þ.e.  á smásölumarkaði.

Þau skilyrði sem sett eru fram í reglugerðinni höfðu sum hver verið uppfyllt af farsímafyrirtækjunum áður en reglugerðin tók gildi en til þess að fá skýra mynd af stöðunni eins og hún er í dag gerði Póst- og fjarskiptastofnun úttekt á því hvernig fyrirtækin hafa staðið að því að uppfylla þær skyldur sem lagðar eru á þau með reglugerðinni. Niðurstöður úttektarinnar má sjá hér. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um ákvæði reglugerðarinnar. Almennt má segja að íslensku farsímafyrirtækin séu langt á veg komin með að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Síminn og Vodafone uppfylla ákvæði hennar að fullu og önnur félög eru komin langleiðina í þeim efnum. Í þeim tilvikum þar sem ákvæði reglugerðarinnar hafa ekki verið innleidd að fullu hjá viðkomandi farsímafyrirtæki verður fyrirtækið sjálft að bera hallan af því, en óheimilt er að innheimta hærra gjald af neytendum en kveðið er á um í reglugerðinni.

 Úttekt á framkvæmd reglugerðar um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum (pdf)

Til baka