Hoppa yfir valmynd

Breiðband er búhnykkur - Evrópuverkefni

Tungumál EN
Heim
23. ágúst 2005

Póst- og fjarskiptastofnun tekur þátt í einu af þeim mörgu verkefnum sem unnin eru undir hatti Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Verkefnið, sem gengur undir skammstöfunni BIRRA (Broadband in Rural and Remote Areas) og nær til fjögurra landa á norðurslóð, miðar að því afla gagna um hvernig nýta megi betur fjarskipta- og upplýsingatækni í dreifbýli. Fræðimenn við Tækniháskólann í Kemi Tornio í Finnlandi stýra verkefninu, en þátttakandur hér á landi auk PFS eru Byggðastofnun, Landsími Íslands, og bæjarfélögin á Ísafirði og á Sauðárkróki. Bændasamtökin og ráðgjafafyrirtækið IMG leggja líka til gögn og rannsóknarniðurstöður.

Markmiðið með Birra-verkefninu er að sýna fram á að markviss uppbygging fjarskiptakerfa getur dregið til muna úr jaðaráhrifum, stuðlað að sérhæfingu í dreifbýli og styrkt samkeppnisstöðu byggða á norðurslóð. Liður í þessu er að kortleggja stöðuna, greina þarfir fyrir frekari uppbyggingu á innviðum fjarskiptakerfa og skoða hvernig samnýta megi tækni. 

Þessa dagana er verið að taka saman gögn um breiðbandsvæðingu á Ísafirði og á Sauðárkróki og helstu byggðarkjörnum í kringum þessi sveitarfélög. Stefnt er að því að taka viðtöl við sveitarstjórnarmenn og fulltrúa þróunarfélaga og fyrirtækja. Verðlagning á breiðbandsþjónustu verður einnig könnuð svo og notkunarmynstur og teknar verða saman upplýsingar um hvaða áætlanir eru uppi um frekari tækniuppbyggingu. Þá verður dregin upp mynd af því  hvernig breiðbandið nýtist í daglegu lífi og störfum íbúa. Leitað verður svara við því hvernig bæta megi stjórnsýslu og þjónustu fyrirtækja og kannað verður hvort þau séu markvisst að nýta breiðbandstæknina. 
Sams konar þarfagreining verður gerð hjá sveitarfélögum í Lapplandi og Kainuu héraði í  Finnlandi, í Västernorrlandi í Svíþjóð og á Skotlandseyjum. Þá verður reynslusögum af svæðunum safnað saman til að draga megi af þeim almennan lærdóm.
Ari Jóhannsson er fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar í Birra-verkefninu.  

Meira um breiðband

 

 

Til baka