Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd fellir úr gildi gildistöku lækkunar lúkningarverða

Tungumál EN
Heim
2. júlí 2013

Með úrskurði sínum nr. 6/2012, dags. 30. júní sl., hefur úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála fellt úr gildi þann hluta ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 32/2012 er snéri að lækkun lúkningarverða íslenskra farsímafyrirtækja í heildsölu úr 4 kr./mín. í 1,66 kr./mín. sem taka átti gildi þann 1. júlí sl. og gilda út árið 2013. PFS ákvarðaði umrætt verð með verðsamanburði við þau ríki innan EES sem beittu nánar tiltekinni kostnaðargreiningaraðferð sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mælti fyrir í tilmælum sínum að skyldi notuð í þessu sambandi. Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 3/2012 skyldi PFS framkvæma slíkan verðsamanburð árlega eigi síðar en 1. nóvember ár hvert og skyldu þau verð gilda fyrir næsta ár á eftir.   

Nova kærði  ákvörðun PFS nr. 32/2012 til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Byggði félagið málatilbúnað sinn á því að fjarskiptalög heimiluðu PFS ekki að framkvæma verðsamanburð með þeim hætti sem gert var, auk þess sem stofnunin hefði brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við ákvörðun sína. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar kom fram að með ákvörðun PFS nr. 3/2012 hefði PFS ákveðið að endanleg ákvörðun um lúkningarverð yrði byggð á verðsamanburði. Jafnframt hefði þar verið tekin ákvörðun um hvaða aðferðarfræði skyldi beitt við slíkan samanburð. Kærandi hefði ekki kært þá ákvörðun. Þeim þætti kærunnar var því vísað frá úrskurðarnefnd.

Úrskurðarnefnd hafnar því að PFS hafi við umræddan verðsamanburð brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefnd fellir hins vegar úr gildi þann hluta hinnar kærðu ákvörðunar sem snýr að gildistöku hennar 1. júlí sl. þar sem hún telur að PFS hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kom að ákvörðunin hefði miðað að því að færa heildsölugjöld fyrir lúkningu símtala hjá fjarskiptafyrirtækjum hér á landi sem fyrst til samræmis við tilmæli ESB og ESA, svo og athugasemdir ESA. Úrskurðarnefnd er sammála PFS um að það sé lögmætt markmið með stjórnsýslu PFS að færa umrædd lúkningargjöld eins fljótt og auðið er til samræmis við tilmæli ESA.

Úrskurðarnefndin telur þó að við ákvörðun um það hvenær lúkningarverð kæmi til framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, hefði skipt máli að á þeim tíma sem verðsamanburðurinn fór fram höfðu aðeins 7 af 30 samanburðarríkjum ákveðið að beita umræddri kostnaðargreiningaraðferð og ákveðið lúkningarverð á grundvelli hennar, með gildistöku fyrir eða frá 1. júlí sl.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem nefndin hafði við vinnslu málsins höfðu þá 20 ríki ákveðið að byggja lúkningarverð á umræddri kostnaðargreiningaraðferð. Af þeim hefðu hin lækkuðu verð tekið gildi í 13 ríkjum þann 1. júlí sl. en myndu taka gildi í 7 ríkjum síðar á árinu 2013 eða á árinu 2014.  Skv. framansögðu hefðu því 13 ríki, eða tæplega helmingur EES ríkjanna, tekið upp umrædda kostnaðargreiningaraðferð á sama tíma og hin kærða ákvörðun PFS kvað á um.

Í ljósi þess hversu mörg samanburðarríkjanna hafa ákveðið seinni gildistökutíma eða ekki tekið neina ákvörðun um upptöku umræddrar kostnaðargreiningaraðferðar og að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða, telur úrskurðarnefnd að ekki hafi verið nauðsynlegt að láta það lúkningarverð sem ákveðið hefði verið í hinni kærðu ákvörðun taka gildi frá 1. júlí 2013. Því fellir nefndin umræddan gildistökutíma brott í hinni kærðu ákvörðun en gerir ráð fyrir að PFS taki nýja ákvörðun um lúkningarverð fyrir 1. nóvember nk. sem gilda skal frá 1. janúar 2014, í samræmi við framangreinda ákvörðun PFS nr. 3/2012.

Úrskurðarnefnd gerir því ekki athugasemdir við fjárhæð þess lúkningarverðs sem PFS hefur ákvarðað, né þá aðferðarfræði sem stofnunin beitti við þann útreikning. Einungis að ekki hafi verið nauðsynlegt að lækkunin tæki gildi þann 1. júlí sl.

Af ofangreindum úrskurði úrskurðarnefndar leiðir að einhver bið verður á því að íslenskir neytendur muni njóta góðs af þeim lækkuðu lúkningargjöldum sem PFS hafði mælt fyrir um. Þróunin í Evrópu síðustu misseri er í átt að ört lækkandi lúkningargjöldum þótt einstaka ríki hafi séu styttra komin en önnur í þessum efnum.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 6/2012 - Nova gegn Póst- og fjarskiptastofnun (PDF)

 

        

Til baka