Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur

Tungumál EN
Heim
16. nóvember 2006

Þann 13. nóvember sl. tók Póst- og fjarskiptastofnun ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Rannsókn á tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar hefur staðið frá árinu 2003 og byggir á 36. gr. fjarskiptalaga, þar sem kveðið er á um að “Fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem reka almenn fjarskiptanet eða veita almenna fjarskiptaþjónustu og njóta einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni frá annarri starfsemi eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi.”

Í ákvörðun stofnunarinnar segir m.a. að þrátt fyrir að OR hafi, í framhaldi af tilkynningu stofnunarinnar um fyrirhugaðar aðgerðir dags. 10. janúar sl., fært tilhögun fjárhagslegs aðskilnaðar fjarskiptastarfseminnar (Gagnaveitan) til betri vegar, sé þörf á úrbótum varandi nokkur atriði. Var fyrirmælum beint til OR um eftirfarandi:

  1. Sjálfstætt reikningshald Gagnaveitunnar þarf jafnframt að ná til færslu veltufjármuna og skammtímaskulda.
  2. Sett voru skilyrði varðandi lán Gagnaveitunnar. Annars vegar að lán vegna yfirtöku eigna skulu bera markaðsvexti. Hins vegar að þess skuli gætt að  lán séu ekki niðurgreidd og séu á sambærilegum kjörum og óskyldur aðili mundi fá.
  3. Kveðið var á um takmörkun á heimild OR til að veðsetja eignir sínar í tengslum við lán sem tekin verða vegna starfsemi Gagnaveitunnar.
  4. Að OR þurfi að taka sérstaka ákvörðun fyrir árslok um arðsemiskröfu Gagnaveitunnar með tilliti til samkeppnissjónarmiða og þess sem almennt gerist á fjarskiptamarkaði.

Við málsmeðferð málsins voru skoðuð margvísleg gögn er vörðuðu fjárhag og rekstur OR. Í sumum tilvikum var leitað sérfræðilegra álitsgerða varðandi afmarkaða þætti málsins. Stofnunin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við eftirfarandi þætti:

  1. Stofnefnahagsreikning Gagnaveitunnar.
  2. Kaupverð ljósleiðaranets Línu.Nets og mat þess í stofnefnahagsreikningi.
  3. Meðhöndlun sameiginlegs kostnaðar og viðskipti milli sviða.
  4. Verðskrá fyrir þjónustu Gagnaveitunnar.
  5. Afskriftartíma eigna, þ.m.t. ljósleiðarakerfis

Rétt er að geta þess að við meðferð þessa máls þessa krafðist Síminn þess að fá stöðu aðila máls og úrskurðaði úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála Símann með stöðu aðila máls með úrskurði sínum fyrr á árinu.

Ákvörðun um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur  (PDF)


Nánari upplýsingar gefur Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar í síma 510-1500

 

Til baka