Fyrir skömmu kom út skýrsla sem Evrópusambandið lét vinna um stöðu fjarskipta og upplýsingatækni í þeim löndum sem nú teljast taka þátt í stækkunarferli Evrópusambandsins, þ.á.m. á Íslandi. Skýrslan var unnin af alþjóðlega rannsóknarfyrirtækinu Cullen International og er hluti af þriggja ára verkefni (2011 – 2013) sem fyrirtækið vinnur fyrir ESB.
Í skýrslunni er að finna yfirlit yfir stöðu hinna ýmsu þátta fjarskipta og upplýsingatækni í löndunum sem fjallað um og samanburð við löndin innan ESB, auk þess sem tilhögun eftirlits og staða eftirlitsstofnana er skoðuð.
Almennt séð gefur skýrslan jákvæða mynd af stöðu Íslands á þessu sviði. Tiltekið er að Íslendingar séu langt komnir með að laga fjarskiptaumhverfi sitt að lögum og regluverki ESB og í samanburði við ESB löndin og önnur lönd í stækkunarferlinu kemur Ísland vel út á nær öllum sviðum.
Auk þess að birta samanburð og fjalla um stöðuna á sviði fjarskipta og upplýsingatækni er horft til framtíðar og þess sem leggja þarf áherslu á varðandi fjarskiptamarkaðinn á næstunni. Varðandi Ísland er lögð áhersla á innleiðingu endurskoðaðs fjarskiptaregluverks Evrópu og vinnu við aðra umferð markaðsgreininga, sem nú er í fullum gangi innan PFS.
Sérstaklega er rætt um eftirlitsstofnanir landanna í skýrslunni og nauðsyn þess að þær hafi fjárhagslegt sjálfstæði og valdheimildir til að fylgja eftirlitshlutverki sínu eftir. Vissar áhyggjur af fjárhagslegu sjálfstæði Póst- og fjarskiptastofnunar koma fram í skýrslunni og bent er á að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hafi stofnunin búið við skerðingu á þeim fjármunum sem hún fær úthlutað til starfsemi sinnar á ári hverju.
Upplýsingum sem fram koma í skýrslu Cullen var safnað hér á landi með aðstoð ýmissa aðila, m.a. Póst- og fjarskiptastofnunar. Gert er ráð fyrir að sams konar skýrslur verði gefnar út fjórum sinnum á þeim þremur árum sem verkefnið stendur, þ.e. til 2013.
Sjá skýrsluna í heild á vef Cullen International
Til baka