Hoppa yfir valmynd

Allt að 85,3% verðmunur milli fjarskiptafyrirtækja fyrir að hringja í 118

Tungumál EN
Heim
18. febrúar 2013

Á heimasíðu Já upplýsingaveitna ehf. (Já) er verðskrá þar sem birt eru þau gjöld sem fyrirtækið tekur fyrir þjónustu sína.  Sú verðskrá sýnir hins vegar ekki endilega það verð sem einstakir neytendur þurfa að greiða fyrir þjónustuna þegar upp er staðið. Verðskráin á vef Já sýnir það verð sem gildir gagnvart fjarskiptafyrirtækjum fyrir að tengjast númerinu 118 fyrir hönd  viðskiptavina sinna.
Fjarskiptafyrirtækin endurkrefja síðan viðskiptavini sína í samræmi við gjaldskrá Já, auk þess sem flest fyrirtækin innheimta eigin kostnað vegna viðkomandi símtala og hugsanlega álagningu þar ofan á.

PFS hefur gert úttekt á því hvernig fjarskiptafyrirtækin verðleggja símtöl í 118 og er það mjög mismunandi.  Í töflunni hér fyrir neðan sjást þau verð sem mismunandi fjarskiptafyritæki innheimta hjá viðskiptavinum sínum fyrir að tengja þá við upplýsingaþjónustu í númerinu 118.  Tölurnar miðast við verðskrá fyrirtækjanna nú í febrúar 2013. Eins og sést er 85,3% munur á þessu verði hjá því fjarskiptafyrirtæki sem er með hæstu álagninguna miðað við það fjarskiptafyrirtæki sem tekur ekkert viðbótargjald fyrir þjónustuna.

Athugið að almennt rukka fyrirtækin notendur að lágmarki fyrir fyrstu mínútuna og síðan fyrir hverja byrjaða mínútu eftir það. Þannig greiðir notandinn tvær mínútur fyrir símtal sem er t.d. 1 mínúta og 10 sekúndur.
Þetta þýðir að verðið sem gefið er upp fyrir 1 mínútu símtal er lágmarksverð fyrir að hringja í 118 í gegnum viðkomandi fyrirtæki.

Úttekt PFS á verðum símtala í 118

 UpphafsgjaldMínútugjaldVerð 1 mín. símtalsÁlagning á 1 mín. símtalÁlagning í %
 Já upplýsingaveitur 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr.  
 Síminn farsími 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr. 0,0 kr. 0,0%
 Síminn fastlína 80,0 kr. 70,0 kr. 150,0 kr. 0,0 kr. 0,0%
 Alterna farsími 90,0 kr. 80,0 kr. 170,0 kr. 20,0 kr. 13,3%
 Nova farsími  89,9 kr. 89,9 kr. 179,8 kr. 29,8 kr. 19,9% 
 Hringdu fastlína  94,9 kr. 94,9 kr. 189,8 kr. 39,8 kr. 26,5%
 Símafélagið fastlína 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0%
 Símafélagið farsími 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0%
 Vodafone fastlína 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0%
 Vodafone farsími 99,0 kr. 99,0 kr. 198,0 kr. 48,0 kr. 32,0%
 Hringdu farsími 101,9 kr. 101,9 kr. 203,8 kr. 53,8 kr. 35,9%
 Tal fastlína 129,0 kr. 149,0 kr. 278,0 kr. 128,0 kr. 85,3%
 Tal farsími 129,0 kr. 149,0 kr. 278,0 kr. 128,0 kr. 85,3%

Á súluritinu hér fyrir neðan sést í bláum súlum hvert verð fyrir einnar mínútu langt símtal er hjá hverju fyrirtæki þegar hringt er úr heimasíma eða farsíma.  Rauða línan sýnir hlutfallslega álagningu viðkomandi fyrirtækis á verð Já:

Verðsamanburður_1 mín. í 118

Þar sem upplýsingaþjónusta Já um símanúmer telst til alþjónustu samkvæmt fjarskiptalögum lýtur gjaldskrá fyrirtækisins eftirliti PFS. Hins vegar hefur álagning eða viðbótarþóknun fjarskiptafyrirtækjanna ofan á gjaldskrá Já ekki lotið eftirliti stofnunarinnar hingað til. Það kann að vera eðlilegt að fjarskiptafyrirtækin taki einhverja þóknun fyrir að annast tengingu og framkvæmd símtals við númerið 118, en meðal hugsanlegra kostnaðarþátta má nefna eigin kostnað við símtalið, auk reikningagerðar, áhættu af innheimtu krafna og e.t.v. fleira.

Í ljósi þess mikla munar sem er á álagningu fjarskiptafyrirtækja vegna tenginga við 118 útilokar PFS ekki að mæla fyrir um hámark slíkra þóknana fjarskiptafyrirtækja á grundvelli 2. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga þar sem þjónusta fjarskiptafyrirtækja við tengjast númeri upplýsingaþjónustunnar verður teljast órjúfanlegur þáttur í veitingu þjónustunnar.

Óhófleg álagning fjarskiptafyrirtækja á verðskrá upplýsingamiðlunar um símanúmer kann að raska þeim lögbundna rétti neytenda að alþjónusta standi þeim til boða á viðráðanlegu verði, eins og skilgreining á alþjónustu gerir kröfu um. Samkvæmt skilningi PFS felst í slíkri kröfu að verðlagning fyrir alþjónustu megi ekki vera langt umfram eðlilegan kostnað við að veita þjónustuna. Mun PFS taka þetta til frekari skoðunar á næstunni, m.a. í tengslum við endurskoðun á þeirri alþjónustukvöð sem hvílir á Já, um að veita upplýsingaþjónustu um símaskrárupplýsingar og útgáfu símaskrár. 

Sjá nánar um alþjónustuskyldur Já upplýsingaveitna:
Ákvörðun PFS nr. 22/2011 - Útnefning Já Upplýsingaveitna hf. með skyldu til að veita alþjónustu að því er varðar útgáfu símaskrár og rekstur upplýsingaveitu um símanúmer (PDF skjal)

 

 

  

 

Til baka