Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sat í byrjun vikunnar upphaf allsherjarþings Alþjóðafjarskiptasambandsins (International Telecommunication Union), ITU, í Tyrklandi. Í ávarpi sínu sagði ráðherra meðal annars að nauðsynlegt væri að endurskoða og bæta fjarskiptasamband víða um heim; það yrði að vera afkastamikið og hagkvæmt.
Samgönguráðherra flutti ávarp sitt á öðrum degi þingsins sem stendur í þrjár vikur. Ásamt ráðherra sátu upphaf þingsins þau Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Ari Jóhannsson frá Póst- og fjarskiptastofnun. Ari situr út þingið sem lýkur þann 24. nóvember nk..
Samgönguráðherra sagði einnig í ávarpi sínu að nauðsynlegt væri að ITU endurskoðaði starfsemi sína með hliðsjón af margs konar tækninýjungum sem nú settu mark sitt á fjarskiptamarkað um heim allan. Nefndi hann sérstaklega öryggi og áreiðanleika fjarskiptaneta. Sagði hann að ITU ætti áfram að vera vettvangur alþjóðlegrar umræðu og þróunar í fjarskiptum.
Á myndinni hér til hliðar flytur Sturla ávarp sitt. Við hlið hans sitja þau Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Ávarp samgönguráðherra má lesa í heild á vefsíðu allsherjarþings ITU
Til baka