Hoppa yfir valmynd

Nýr verðsamanburður á símtölum í 118

Tungumál EN
Heim
15. mars 2013

Þann 18. febrúar s.l., birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) frétt hér á heimasíðu sinni þar sem birtar voru niðurstöður úr verðsamanburði sem stofnunin gerði á milli símafyrirtækjanna á því verði sem þau gjaldfæra frá viðskiptavinum sínum þegar þeir hringja í 118. Byggði samanburðurinn á verðskrá símafyrirtækjanna sjálfra eins og þær voru birtar og settar fram á heimasíðu þeirra í febrúar 2013. 

Síðar kom í ljós að framsetning verða af hálfu símafyrirtækjanna byggði ekki að öllu leyti á samræmdum forsendum. Þannig var þjónusta Símans við að koma á símtali við 118 ekki sýnd sem álagning eða viðbótargjald á símtal samkvæmt gjaldskrá Já, eins og hin símafyrirtækin kjósa að gera.
Þess í stað gjaldfærir Síminn sérstaklega fyrir venjulegt símtal samkvæmt gjaldskrá sinni, miðað við viðeigandi þjónustuleið hvers og eins notanda, til viðbótar við gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá Já.

PFS telur ekkert vera því til fyrirstöðu að símafyrirtæki hagi gjaldtöku í yfirgjaldsnúmer á þann hátt sem Síminn gerir, svo fremi sem notandinn er upplýstur um að gjaldtakan fari fram með tvöföldum hætti, þ.e. annars vegar samkvæmt gjaldskrá Já og hins vegar samkvæmt gjaldskrá símafyrirtækisins. Í verðskrá Símans var hins vegar hvergi að finna upplýsingar um að gjaldfært væri fyrir símtal samhliða gjaldtöku samkvæmt verðskrá Já þegar hringt er í 118. Því telur PFS að framsetningu Símans á upplýsingum um raunverulegt verð fyrirtækisins fyrir símtöl í 118 hafi verið ábótavant með tilliti til kröfu um að birta skuli gjaldskrár og skilmála þjónustu á aðgengilegan hátt fyrir notendur. (Sbr. 5. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga).

Stofnunin hefur því beint þeim tilmælum til Símans að gera skilmerkilegri grein fyrir því hvernig gjaldtöku vegna hringinga í númerið 118 er háttað, þannig að neytendur fá skýrari mynd af heildarkostnaði við að nýta sér umrædda þjónustu hjá fyrirtækinu. Hefur Síminn fallist á að fara að þeim tilmælum PFS.

PFS vill þó leggja áherslu á að þrátt fyrir framangreint þá stendur megin niðurstaða fyrrgreindrar úttektar óhögguð;  þ.e. að dæmi séu um allt að 85% álagningu símafyrirtækjanna á verðskrá Já. Til að fá óyggjandi niðurstöðu gerði stofnunin umræddan verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna að nýju nú í mars, þar sem tekið er mið af viðbótargjaldi því sem Síminn gjaldfærir til hliðar við gjaldtöku Já. Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

 

118 verðsamanb_m.v.1 mín_mars 2013

Tekið skal fram að í verðsamanburðinum hér að ofan er eingöngu tekið mið af verðskrá fyrirtækjanna og ekki tekin með ýmis hlunnindi sem falist geta í mismunandi áskriftarpökkum fyrirtækjanna.

Já upplýsingaveitur hafa tilkynnt PFS um hækkun á heildsöluverði símtala í 118 sem tekur gildi þann 1. apríl nk. Hækkunin mun nema 10 krónum fyrir 1 mínútu símtal og verður því 160 kr. í stað 150 kr. áður. Mun stofnunin fylgjast með áhrifum þeirrar hækkunar á verðskrá símafyrirtækjanna og birta verðsamanburð á símtölum í 118 á næstu mánuðum.

 

 

 

Til baka