Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um kostnaðargreiningu á verðskrá fyrir hýsingu

Tungumál EN
Heim
29. apríl 2014

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) drög að ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu Mílu ehf. á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu).

Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar.

Kostnaðargreiningin nær til hýsingar í húsum og möstrum. Leiga á aðstöðu í húsum er í samræmi við ákvörðun PFS nr. 41/2010, dags 30. desember 2010, varðandi kostnaðargreiningu Mílu á verðskrá fyrir aðstöðuleigu (hýsingu). Í samræmi við þá ákvörðun var fyrirkomulagi við ákvörðun á leigu í möstrum endurskoðað og er nú leigueiningum skipt í fjóra flokka eftir stærð þeirra í fermetrum og staðsetningu í mastri. PFS samþykkir niðurstöðu Mílu hvað varðar breytingu á forsendum og aðferðarfræði vegna gjaldskrár fyrir leigu í möstrum. Þau afsláttarkjör sem gilda fyrir húsnæði skulu einnig gilda fyrir möstur.

Í heild er reiknað með að leigutekjur Mílu vegna húsa hækki um 8,1% og að leigutekjur vegna mastra hækki um 8,6% miðað við tekjur samkvæmt núverandi gjaldskrá.

Hina fyrirhuguðu nýju gjaldskrá má finna í heild sinni í viðauka I í fyrirhugaðri ákvörðun PFS.

Fyrirhugað er að hin nýja verðskrá Mílu ehf. taki gildi næstu mánaðamót eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Heimili ESA PFS að taka umrædda ákvörðun má búast við endanlegri ákvörðun í málinu í lok maí nk. sem þýðir að hin nýju verð taka gildi þann 1. júní nk.

Drög að ofangreindum ákvörðunum eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. ESA og aðrar eftirlitsstofnanir hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Sjá samráðsskjölin á íslensku og ensku (PDF skjöl):

 Skjölin á íslensku
 Skjölin á ensku
 Drög að ákvörðun PFS
 PTA Draft Decision
 Viðauki I - Gjaldskrá
 Appendix I - Tariff
 Viðauki II - Niðurstöður innanlandssamráðs
 Appendix II - Conclusions from consultation

 

Til baka