Hoppa yfir valmynd

FM útvarp fyrir MP3 og iPod spilara - nýjar reglur í smíðum

Tungumál EN
Heim
16. ágúst 2005

Evrópska samstarfsnefndin um fjarskipti (European Communications Committe, ECC) hefur til skoðunar hvort og þá hvaða reglur skuli gilda um nýja notkun FM-hljóðvarpstíðna (87,5-108 MHz), svo hlusta megi á tónlist og annað efni úr nýjum stafrænum spilurum s.s. iPOD í venjulegu FM-útvarpi.

 

Um nokkurt skeið hefur í Bandaríkjunum verið seldur búnaður sem gerir fólki kleift að tengja spilara við útvarpsviðtæki t.d. í bílum og senda út á FM-tíðnum með mjög lítilli orku, þannig að það trufli ekki móttöku annarra útvarpssendinga. Sala á slíkum búnaði hefur verið bönnuð á evrópska efnahagssvæðinu, en engu að síður er talið að hann sé fluttur þangað í stórum stíl.

 

Á fundi Evrópsku samstarfsnefndarinnar um fjarskipti í Reykjavík í júní s.l. var ákveðið að leita eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila fram til 15. september áður en lögð yrðu fram drög að reglum um notkun lágaflsbúnaðar á umræddu FM-tíðnisviði. Gert er ráð fyrir að útsent afl þessara mikró-senda sé 50 nW e.r.p.

 

Vonir standa til þess að nýjar reglur verði samþykktar á næsta fundi ECC, sem haldinn verður í október n.k. Gefst þá tækifæri fyrir framleiðendur að setja á markað löglegan CE-merktan búnað á EES-svæðinu. Eigendur iPod og MP3 spilara ættu þá jafnframt að geta notað FM útvarpstækin í stað höfuðheyrnartóls til þess að njóta tónlistar.

Til baka