Hoppa yfir valmynd

Fréttatilkynning vegna netsímaþjónustu

Tungumál EN
Heim
24. júlí 2006

Netsíminn er tækninýjung þar sem símaþjónusta er boðin í samræmi við staðla Internetsins. Með netsímanum geta neytendur m.a. nýtt sér kosti flökkuþjónustu sem felst í því að hægt er að tengjast símkerfum hvar sem er í heiminum með svipuðum kostnaði og um venjulega heimilisnotkun væri að ræða. Netsímaþjónusta er nú boðin í nær öllum ríkjum Evrópusambandsins og víða annars staðar.  Erlendis hefur þjónustan m.a. aukið samkeppni á fjarskiptamarkaði, auðveldað innkomu nýrra markaðsaðila, og leitt til lægra verðs og aukinnar þjónustu við neytendur. Því er spáð að netsímaþjónusta muni smám saman taka alfarið við af hefðbundinni rásaskiptri talsímaþjónustu.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hóf undirbúning að innleiðingu þjónustunnar hérlendis í lok árs 2004. Á því tímabili var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Jafnframt var sérstakt samráð haft við Neyðarlínuna um þau atriði sem snúa að staðsetningarupplýsingum. Í því samráðsferli komu fram nokkrir annmarkar á netsímaþjónustu hvað varðar öryggi, t.d. að enn hefur ekki verið sett á markaðinn lausn sem gerir kleift að staðsetja netsíma á sama hátt og almennir heimilissímar eru staðsettir í kerfi Neyðarlínunnar í dag. Til mótvægis við þessa annmarka var ákveðið að skilgreina sérstaka númeraröð fyrir flökkuþjónustu, að merkja sérstaklega þau símanúmer sem flutt væru úr almennun númeraröðum yfir í netsímaþjónustu og að fjarskiptafélög skyldu upplýsa neytendur sérstaklega um þá annmarka sem er á netsímaþjónustu hvað varðar þennan öryggisþátt. PFS tók ákvörðun um að heimila netsímaþjónustu m.a. á grundvelli þess að Neyðarlínan gerði ekki athugasemdir við fyrirætlanir stofnunarinnar eins og þær birtust í yfirlýsingu um netsímaþjónustu frá 3. febrúar 2006. Í kjölfar hennar hófu markaðsaðilar að innleiða og bjóða netsímaþjónustu.

 

Það kom því PFS á óvart að Neyðarlínan skyldi kæra bráðabirgðaákvörðun stofnunarinnar í ágreiningsmáli því sem verið hefur til umræðu í fjölmiðlum undanfarið og nýlegur úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála tók til. Varðaði það mál synjun Símans um að flytja símanúmer yfir í netsímaþjónustu hjá Atlassíma. Samkvæmt bráðabirgðaákvörðun PFS var það mat stofnunarinnar að ágreiningsefni málsins væri óskylt miðlun staðsetningaupplýsinga í netsímaþjónustu almennt. Í ljósi þess að umrædd fjarskiptafyrirtæki hafa nú leyst úr ágreiningi sínum með sátt, telst málinu hins vegar lokið af hálfu stofnunarinnar. 

 

PFS tekur undir þau sjónarmið sem komið hafa fram um mikilvægi þess að stuðla að öryggi símnotenda eins og framast er unnt, m.a. varðandi miðlun staðsetningarupplýsinga. Er það sannfæring stofnunarinnar að innan tíðar muni koma á markaðinn lausnir sem duga til að staðsetja símnotendur netsímans í neyðartilfellum. Með þetta í huga, og í ljósi þess að sama þróun á sér stað í nær öllum nágrannaríkjum okkar, taldi PFS hag neytenda best borgið með því að heimila netsímaþjónustu.

 

Stofnunin vill að lokum benda á að samkvæmt fjarskiptalögum er fjarskiptafyrirtækjum ekki skylt að miðla staðsetningarupplýsingum til neyðarþjónustuaðila, þ.m.t. lögreglunnar. Hins vegar hefur samstarf milli hagsmunaaðila leitt til þess að við Íslendingar búum við gott kerfi neyðarbjörgunar sem full ástæða er til að standa vörð um. Ljóst er að vegna mikillar og hraðrar tækniþróunar, sem birtist m.a. í samruna fjarskipta og upplýsingatækni, mun útfærsla lausna á þessu sviði vera viðvarandi verkefni næstu ár. Í þeirri vinnu verða allir aðilar að vera samstíga og taka höndum saman um að útfæra lausnir sem tryggja öryggi neytenda að teknu tilliti til sjónarmiða um persónuvernd.

 

Hér má sjá yfirlýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi netsímaþjónustu frá því í febrúar 2006.

 

Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, s. 510-1500, t-póstur:hrafnkell@pfs.is

 

Til baka