Hoppa yfir valmynd

Umsögn PFS um frumvarp innanríkisráðherra um landslénið .is

Tungumál EN
Heim
21. febrúar 2013

PFS hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um landslénið .is og önnur höfuðlén til umhverfis- og menntamálanefndar Alþingis. Í umsögn sinni bendir PFS m.a. á að rekstrarfyrirkomulag núverandi skráningaraðila, sem felst í einkarekinni einokunarstarfsemi á skráningu á landsléninu, kunni að hafa í för sér neikvæðar afleiðingar fyrir neytendur. Verðsamanburður PFS á árlegum skráningargjöldum hér landi við Norðurlöndin leiðir í ljós umtalsvert hærri gjöld hér á landi, en árleg skráningargjöld ISNIC eru 100-300% hærri en gjöld í viðkomandi löndum. Borin eru saman kaupmáttarjöfnuð verð (Purchasing Power Parity, PPP) í evrum.

Verðsamanb_lénaskráningar á Norðurlöndum

Smæð markaðarins virðist ekki skýra hina háu verðlagningu hér á landi, en PFS gerði einnig verðsamanburð við smáríkin Liechtenstein og Möltu og reyndist verðið á Íslandi um eða yfir 100% hærra í þeim samanburði.

 

Landslén er takmörkuð auðlind
Í ljósi mikillar, og á stundum misvísandi, umræðu um þessi mál telur Póst- og fjarskiptastofnun rétt að halda eftirfarandi sjónarmiðum til haga varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi:

  • Landslénið .is er auðkenni sem hefur sérstök tengsl við land og þjóð og er í eðli sínu takmörkuð auðlind. Utanumhald og skráningarstarfsemi fellur því undir hugtakið „náttúruleg einokun” (e. natural monopoly) og þarf að vera á hendi eins aðila. Í samræmi við þær meginreglur sem almennt gilda um ráðstöfun og nýtingu auðlinda telur PFS eðlilegt að löggjafinn geti sett lög um ráðstöfun og nýtingu þessara réttinda.
  • PFS telur mikilvægt að hið opinbera setji þær reglur sem gilda um skráningu léna undir landsléninu, þannig að einkaaðilum sé ekki í sjálfsvald sett hvernig staðið sé að því.
  • Með tilliti til mikilvægis internetþjónustu fyrir samfélagið allt, s.s. vegna viðskipta og þjónustu, er mikilvægt að gerðar séu viðeigandi kröfur til öryggis búnaðar, upplýsinga í lénaheitakerfi og rétthafaskrá og tengdum gagnagrunnum og kerfum og að öryggisviðbúnaður og áfallastjórnun miði að samfelldum og órofnum rekstri starfsemi skráningarstofu. Að mati PFS verður markmiðum um nauðsynlegt öryggi reksturs, búnaðar og gagna í þeim, ekki tryggt nema með löggjöf.
  • Gjaldskráreftirlit, samkvæmt 16. gr. frumvarpsins, verður að telja mikilvæga neytendavernd og mótvægisaðgerð við þá náttúrulegu einokun sem felst í skráningu á landsléninu .is, og e.t.v. fleiri höfuðlénum seinna meir. Eftirlit með gjaldskrám er viðurkennt úrræði þegar um er að ræða framboð og verðlagningu á samfélagslega mikilvægri grunnþjónustu og sú aðstaða er uppi að fáir eða enginn getur keppt við þann aðila sem fyrir er á markaði, t.d. vegna eðlis þjónustunnar og/eða mikils kostnaðar við fjárfestingu og uppbyggingu til þess að koma inn á markaðinn

Einkarekstur á landsléni sjaldgæft rekstrarfyrirkomulag
Því hefur verið haldið fram að með 1. gr. frumvarpsins ætli íslenska ríkið að taka sér „alræðisvald“ með því að slá því föstu að íslenska ríkið fari með ákvörðunarrétt yfir landsléninu is og önnur höfuðlén.
Staðreyndin er sú að víðast hvar er skráningum á landsléni landa komið fyrir hjá opinberum stjórnvöldum, þeim komið fyrir innan háskólasamfélagsins eða eru á hendi nokkurs konar sjálfseignarstofnana (e. Non-Profit Organization). Er þá haft að markmiði að um sé að ræða samfélagslega starfsemi, þar sem sjónarmið internetsamfélagsins fái að heyrast og njóta sín, auk þess sem skráningarstarfsemin er ekki rekin í hagnaðarskyni.
Í skýrslu sem OECD sendi frá sér árið 2006 er fjallað um þróun umsýslu um landslén og önnur höfuðlén.  Skýrslan ber heitið Evolution in the Management of Country Code Top-level Domain Names (ccTLDs) og á bls. 19 í henni er að finna þessa töflu sem sýnir greinilega sérstöðu Íslands hvað þetta varðar.

 

Brýnt að setja almenn lög um landslénið .is sem fyrst
Póst- og fjarskiptastofnun telur að sú skipan mála að jafn samfélagslega mikilvæg og takmörkuð auðlind og landslénið .is skuli vera fyrir komið í einokunarstarfsemi einkaaðila sé afar óheppileg og geti m.a. skýrt þann mikla verðmun sem er á árgjöldum lénaskráningar hér á landi samanborið við þau lönd sem við helst berum okkur saman við, sbr. umfjöllun í kafla 4.2. Þessi staða, með tilliti til hagsmuna neytenda, samfélagslega mikilvægis þjónustunnar, auk sjónarmiða um rekstralegt öryggi og stjórnsýslulegt eftirlit með starfseminni, beinlínis kallar á að sett verði almenn lög um starfsemina. Telur PFS afar brýnt að það verði gert sem fyrst.

 

Sjá umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar í heild (PDF skjal)

 

 

 

Til baka