Hoppa yfir valmynd

Samráð um fyrirhugaða alþjónustuútnefningu Neyðarlínunnar ohf.

Túngumál EN
Heim

Samráð um fyrirhugaða alþjónustuútnefningu Neyðarlínunnar ohf.

10. september 2020

Almennt landsdekkandi grunnet fjarskipta á Íslandi (fastanetið), auk staðbundinna ljósleiðaraneta sem byggð hafa verið upp á umliðnum árum, tengja öll lögheimili og vinnustaði með heilsársatvinnustarfsemi á landinu (staðföng), með örfáum undantekningum. Í einstaka tilvikum hefur kostnaður við tengingu verið það hár, t.d. vegna fjarlægðar frá símstöð, erfiðra landfræðilegra skilyrða o.s.frv., að ekki hefur verið hægt að tengja staðfang með fastanetstengingu. Hafa þá verið farnar aðrar leiðir til að koma á fjarskiptasambandi, t.d. yfir örbylgju, gervihnött eða með því að gera ráðstafanir til að móttaka og magna farsímamerki, ef þess hefur verið kostur.

Á undaförnum árum hefur fjarskiptasjóður tekið það að sér að styrkja slíkar framkvæmdir sem ekki eru mögulegar á markaðsforsendum. Í dag eru á annan tug staðfanga sem njóta slíkrar sértækrar þjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vinnur nú að því að kortleggja umfang þessarar þjónustu. 

Nú þegar Síminn hf. hefur hafið aðgerðir við að loka PSTN kerfinu, sökum aldurs og ástands þess, er fyrirséð að nokkur staðföng muni bætast við þann hóp staðfanga sem gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að koma upp fjarskiptasambandi við. 

Með tilliti til framangreinds hefur PFS í hyggju að útnefna Neyðarlínuna ohf. sem alþjónustuveitanda fjarskiptatenginga fyrir síma- og internetþjónustu í þessum sérstöku tilvikum. Stofnunin efnir nú til opins samráðs við markaðsaðila og almenning um þessi áform.

Frestur til að skila umsögn er veittur til 23. september 2020.  

Samráðsskjal um alþjónustuútnefningu.pdf

Til baka