Hoppa yfir valmynd

PFS úthlutar 5G tíðniheimildum – 5G væðing þéttbýliskjarna á landsbyggðinni

Tungumál EN
Heim
30. apríl 2020

Í dag úthlutaði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tíðniheimildum til að veita 5G þjónustu á 3,6 GHz tíðnisviðinu. Heimildunum er úthlutað til núverandi farnetsfyrirtækja sem m.a. starfrækja 4G farnet, þ.e. Símans hf. Sýnar hf. (Vodafone) og Nova ehf. sbr. samráð um forsendur úthlutunarinnar sem PFS efndi til undir lok síðasta árs.

Tíðnir á 3,6 GHz og tilteknar aðrar tíðnir sem liggja hærra í tíðnirófinu, og koma til úthlutunar síðar, verða meginburðarlag fyrir næstu kynslóð háhraða farnetsþjónustu og er í raun aflvaki fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem ýmiss tæki og hlutir verða tengdir við internetið. 5G tæknin verður innleidd í þrepum og er fyrsta þrepinu ætlað að styðja við eðlilega tækniuppfærslu og afkastagetu fyrirliggjandi háhraða farneta í rekstri félaganna. Til framtíðar litið verða síðan innleiddar ýmsar tækninýjungar sem tengjast interneti hlutanna og öruggri háhraða farnetsþjónustu sem talið er að geti valdið straumhvörfum í beitingu tæknilausna í samfélaginu. Í því samhengi er horft til gríðarlegrar þróunar skýjaþjónustu og gagnavera og er álitið að farnetstengd tæki geti nýtt sér ýmiss konar stýringar og þjónustu sem m.a. mun byggja á gervigreind.

Tíðniheimildunum er nú eingöngu úthlutað til skamms tíma eða til loka árs 2021. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem raktar eru í fyrrnefndu samráðsskjali, en einkum má segja að það sé af völdum ákveðinnar óvissu um hvernig kerfishögun þessar þjónustu verður háttað og vegna fyrirsjáanlegra breytinga á fjarskiptalögum sem munu hafa áhrif á skilmála tíðniheimildanna til lengri tíma litið.

Í þessu ljósi er ekki kveðið á um tilteknar skuldbindingar til uppbyggingar farnetskerfa og útbreiðslu 5G þjónustu, eins og venjan er. Hins vegar er ætlast til þess að tíðnirnar séu nýttar með skilvirkum hætti, en PFS hefur skilgreint tiltekin viðmið í því sambandi. Er bæði um að ræða almennt viðmið um tiltekna útbreiðslu 5G þjónustu til ákveðins hlutfalls af fólksfjölda landsins og hins vegar sértæk viðmið um uppbyggingu á 5G neti í tilteknum þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni, sem fjarskiptafyrirtækin gátu valið úr.

Endurnýjun tíðniheimildanna til fjarskiptafyrirtækjanna mun ráðast af því hvort að þau hafi nýtt tíðnirnar með skilvirkum hætti í samræmi við viðmið PFS þar að lútandi. Gangi áform eftir um skilvirka nýtingu á tíðnunum má segja að skipuleg 5G væðing þéttbýliskjarna á landsbyggðinni sé hafin. Fyrir árslok 2021 geta því allt að níu þéttbýliskjarnar á landbyggðinni vænst þess að hafa aðgang að 5G þjónustu, þ.e. meðaltalsgagnflutningshraða upp á 200 Mb/s. Við endurnýjun á 5G tíðniheimildunum má búast við því að gagnaflutningshraðinn verði aukinn og fleiri þéttbýliskjarnar bætist í hóp þeirra sem munu hafa aðgang að 5G þjónustu í framtíðinni.

Tíðniheimildir:

B3600 – Tíðniheimild Símans hf.
C3600 – Tíðniheimild Nova ehf.
D3600 – Tíðniheimild Sýnar hf. 

Niðurstaða samráðs um úthlutun á 5G tíðniheimildum

 

Til baka