Hoppa yfir valmynd

Kröfu Félags atvinnurekenda um endurskoðun á gjaldskrá Íslandspósts ohf. vísað frá vegna aðildarskorts

Tungumál EN
Heim
17. apríl 2020

Með erindi Félags atvinnurekanda (FA), dags. 5. mars 2020, barst Póst- og fjarskiptastofnun krafa félagsins um að gjaldskrá Íslandspósts ohf. (ÍSP) fyrir pakkasendingar innan alþjónustu yrði tekin til endurskoðunar.

Samkvæmt erindi FA væri það álit félagsins að gjaldskrá ÍSP tæki ekki mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Með gjaldskránni væri verið að undirverðleggja pakka og vörusendingar á virku markaðsvæði. Um væri að ræða samkeppnishamlandi háttsemi  markaðsráðandi aðila sem með gjaldskrá sinni seldi þjónustu sína undir kostnaðarverði og freistaði þess að fá tapið bætt sem alþjónustuframlag frá hinu opinbera. 

Til að einstaklingur eða lögaðili geti átt að aðild að stjórnsýslumáli þarf hann að eiga beinna, verulegra, sérstakra og lögvarðra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Til að hagsmuna- eða félagasamtök geti átt aðild að stjórnsýslumáli fyrir hönd félagsmanna sinna þarf umtalsverður fjöldi félagsmanna að uppfylla framangreind skilyrði.

PFS taldi vafamál hvort umrædd skilyrði væru fyrir hendi varðandi umræddan málarekstur FA og óskaði eftir rökstuðningi hjá félaginu fyrir því. Í svari félagsins kom annars vegar fram að talsverður hluti félagsmanna FA væri í beinni samkeppni við ÍSP og hefðu því verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Voru tiltekin fjögur fyrirtæki innan raða samtakanna tilgreind í þessu sambandi. Hins vegar var byggt á því allir félagsmenn FA hefðu hagsmuna að gæta af því að gjaldskrá ÍSP væri í samræmi við lög.  

Við skoðun á félagtali FA var það niðurstaða PFS að umtalsverður fjöldi félagsmanna í FA ættu ekki sömu eða sambærilegra samkeppnishagsmuna að gæta og þau fjögur fyrirtæki sem voru tilgreind í svörum FA. Því væru ekki uppfyllt skilyrði fyrir því að umtalsverður fjöldi félagsmanna ætti beinna, verulegra, sérstakra og lögvarðra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Þá var það niðurstaða PFS að hagsmunir allra félagsmanna félagsins af því að gjaldskrá ÍSP væri í samræmi við lög væru almenns eðlis og skorti því á að hagsmunirnir væru beinir og sérstakir.

Af framangreindum ástæðum var kröfu FA vísað frá vegna aðildarskorts.      

Ákvörðun PFS nr. 1/2020

Til baka