Hoppa yfir valmynd

Íslensk fjarskiptakerfi standa vel undir auknu álagi

Tungumál EN
Heim
20. mars 2020

PFS og fjarskiptafélög landsins áttu fjarfund um stöðu fjarskiptakerfanna 19. mars 2020 vegna Covid-19. Allir þessir aðilar starfa samkvæmt viðbragðsáætlunum sínum og Almannavarna og fara ítarlega eftir leiðbeiningum sem komið hafa frá Sóttvarnalækni og Almannavörnum varðandi varúðarráðstafanir. Starfsfólki hefur verið skipt upp í flokka sem eru aðskildir og hittast ekki. Stór hluti starfsemi félaganna og í sumum tilvikum öll starfsemi fer fram í fjarvinnu.

Vart hefur orðið við breytt notkunarmynstur hjá notendum, m.a. vegna aukinnar fjarvinnu. Ekki er um mikla aukningu umferðar í fjarskiptakerfunum að ræða og umframafkastageta er í kerfunum, hvort sem um er að ræða fastlínu- eða farnetskerfin. Fjarskiptakerfi landsins virka því vel á landsvísu.
Því hafa íslensk fjarskiptafélög ekki þurft að grípa til sérstakra aðgerða til að anna auknu álagi eins og dæmi eru til annars staðar, má þar nefna t.d. að Netflix og Youtube hafa minnkað myndbandsgæði í Evrópu til að mæta þessu aukna álagi.

Rekstur fjarskiptakerfa á sóttvarnarsvæðum landsins er tryggður og varaáætlanir til staðar. Þá hafa fjarskiptafélögin í samstarfi við PFS hafið samræmt samstarf um GSM reiki ef til kemur að þörf verði á því.

PFS og fjarskiptafélögin munu taka stöðuna vikulega á fjarfundum og aukafjarfundir verða settir á eftir þörfum.

Til baka