Hoppa yfir valmynd

Síminn braut fjölmiðlalög með því að beina viðskiptavinum Sjónvarps Símans að tengdu fjarskiptafyrirtæki

Tungumál EN
Heim
29. nóvember 2019

Í ákvörðun PFS nr. 27/2019 kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ítrekað brot sitt gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga sem PFS hafði komist að niðurstöðu um í ákvörðun nr. 10/2018. Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga leggur PFS 9.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Símann sem greiðist í ríkissjóð, en hámarks sektarheimild er 10.000.000 kr.

Nánar um ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar
Í ákvörðuninni kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ítrekað brot sitt gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.   

Aðilar að málinu eru fimm, þ.e. Sýn hf. (Vodafone), Gagnaveita Reykjavíkur (GR) og Nova sem kvörtuðu til PFS yfir meintu ítrekuðu broti Símans og Síminn og dótturfélag þess Míla ehf.

Ágreiningur fyrra málsins sneri að því hvort Síminn teldist brotlegur gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, sbr. ákvörðun PFS nr. 10/2018. En upphaf þess máls mátti rekja til haustdaga 2015 þegar Síminn ákvað að gera sjónvarpsstöðina Skjá Einn að opinni frístöð og ólínulega efnisveitan Sjónvarp Símans Premium var samhliða sett á laggirnar. Var niðurstaða PFS sú að frá og með 1. október 2015 hafi ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis fjölmiðlaveitu Símans, vegna ákvörðunar Símans þar að lútandi, einungis verið í boði á IPTV kerfi Símans sjálfs, en ekki á IPTV kerfi Vodafone. Þá hafi ólínulega myndmiðlunin ekki verið tiltæk eftir öðrum flutningsleiðum, þ.m.t. með OTT (e. Over The Top) lausn sem væri óháð fjarskiptakerfum eða fjarskiptanetum. Það sama mætti segja um efnisveitu Símans, Sjónvarp Símans Premium. Viðskiptavinir Vodafone, Hringdu, Nova og fleiri félaga, sem notuðu ljósleiðaranet GR, áttu því ekki kost á að nálgast umrætt myndefni. Komst PFS að þeirri niðurstöðu í málinu að Síminn hefði þann 1. október 2015 fullframið brot gegn ákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, sem legði bann við því að fjölmiðlaveita beindi viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.  Síminn hefði getað komið í veg fyrir að framangreint ástand skapaðist á þessum tíma. Til dæmis með því að semja við Vodafone um dreifingu eða bjóða upp á OTT lausn sem væri óháð fjarskiptakerfum eða fjarskiptanetum.

Í ágúst 2018 kynnti Síminn til sögunnar OTT lausn, þ.e. dreifikerfi á sjónvarpi í gegnum internetið (streymisþjónustu) sem félagið kvað óháð fjarskiptanetum. Sýn, GR og Nova kvörtuðu til PFS og töldu umrædda lausn Símans ófullnægjandi og að hún losaði Símann ekki undan framangreindu broti á 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga, sbr. ákvörðun PFS nr. 10/2018. Töldu félögin að framsetning, verðlagning og gæði OTT lausnarinnar beindu enn viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

Í athugasemdum með frumvarpi að fjölmiðlalögum kom fram að ákvæðinu væri ætlað að gera notendum kleift að velja bæði myndefni og fjarskiptafyrirtæki án þess að binda sig í viðskiptum við eitt tiltekið fjarskiptafyrirtæki. Með það fyrir augum að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem hafa bæði yfir að ráða myndefni og fjarskiptanetum misnoti þá aðstöðu sína. Þá væri markmiðið að brjóta upp slíkt lóðrétt eignarhald á efni og dreifingu, þar sem hvati gæti verið fyrir einstaka fjölmiðlaþjónustuveitendur að reyna að beina viðskiptavinum sínum að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

Síminn hélt því hins vegar fram að umrædd OTT lausn væri fullnægjandi lausn óháð fjarskiptaneti og leysti félagið undan broti gegn 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga og Míla tók undir málsstað Símans þess efnis.

Niðurstaða PFS var sú að með því að skilyrða OTT lausn Símans við tiltekinn myndlykil sem væri seldur af fjarskiptahluta Símans hefði fjölmiðlaveita Símans enn verið að beina viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.

Síminn hefði hins vegar átt í samningaviðræðum síðustu mánuði við m.a. Vodafone um dreifingu efnisins og sýndi þar með ákveðna samningsviðleitni, jafnvel þó slíkir samningar væru ekki í höfn. Að mati PFS var hins vegar ekki hægt að líta svo á að umrætt ástand væri eingöngu á ábyrgð Símans og komst að þeirri niðurstöðu að frá og með 2. október 2019 hefði Síminn a.m.k. reynt að vinda ofan af brotinu og ekki hægt að telja Símann enn brotlegan frá þeim tímapunkti.

Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga leggur PFS 9.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Símann sem greiðist í ríkissjóð.

Ákvörðun PFS nr. 27/2019 (pdf)

Til baka