Hoppa yfir valmynd

100 Gb/s Hraðbraut til gagnavers á Blönduósi

Tungumál EN
Heim
19. nóvember 2019


Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 26/2019 samþykkir stofnunin nýja heildsölugjaldskrá Mílu fyrir 100 Gb/s Hraðbrautir og  nýjan tengistað fyrir 100 Gb/s Hraðbraut til gagnavers á Blönduósi. Mánaðarverð fyrir 1 Gb/s og 10 Gb/s Hraðbrautarsambönd sem og stofngjaldið mun haldast óbreytt þar til stofnlínugjaldskrá Mílu verður endurskoðuð næst.  

Hraðbrautarsambönd Mílu hafa hingað til verið takmarkaðar við Höfuðborgarsvæðið og gagnaver í Reykjanesbæ, þ.e. innan við 50 km frá Reykjavík. Því þurfti að taka tillit til meiri vegalengdar til Blönduóss en til fyrirliggjandi tengistaða Hraðbrautarsambanda Mílu þar sem undirliggjandi gjaldskrá sem Hraðbrautarsamböndin byggja á er km háð. Gjaldskráin fyrir 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd er núna skipt í tvo flokka eftir vegalengd, undir 50 km og yfir 100 km. 

PFS hefur yfirfarið útreikninga Mílu á heildsöluverði fyrir 100 Gb/s Hraðbrautir. Niðurstaðan er að verð fyrir 100 Gb/s Hraðbraut til Keflavíkur (undir 50 km) verður 424.404 kr./mán. og að verð fyrir 100 Gb/s Hraðbrautir til gagnavers á Blönduósi (yfir 100 km) verður 848.808 kr./mán. Hækkunin á verði fyrir 100 Gb/s Hraðbraut til Reykjanesbæjar nemur tæpum 4%. Núverandi verð fyrir 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd byggja á kostnaði frá árinu 2016 og er hækkunin undir hækkun á byggingavísitölu og vísitölu neysluverðs frá þeim tíma. PFS gerir því ekki athugsemd við þessa hækkun. 

Á tímabilinu 26. september til 10. október sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrá Mílu. Athugasemdir bárust frá Farice og er gerð grein fyrir þeim í 2. kafla ákvörðunarinnar ásamt andsvörum Mílu og afstöðu PFS. PFS sendi stutta tilkynningu (e. short notification) til ESA til samráðs á EES-svæðinu þann 16. október sl., sbr. c-lið 6. málsgreinar tilmæla ESA um tilkynningar, tímafresti og samráð frá 2. desember 2009, ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og 7. gr. rammatilskipunar ESB. Samráðinu lauk þann 15. nóvember sl. og hefur PFS móttekið álit ESA sem fylgir með í viðauka II við ákvörðun þessa. ESA gerði engar athugasemdir við áform PFS í ákvörðunardrögum sínum sem lýst var í tilkynningu PFS til ESA.

Til baka