Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um heildsöluverð fyrir lúkningu símtala í farsímanetum og föstum netum

Tungumál EN
Heim
9. ágúst 2019

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú framkvæmt verðsamanburð til að ákvarða hámarksverð fyrir lúkningu símtala sem gilda skulu á árinu 2020. Verðsamanburðurinn byggir á ákvörðun PFS nr. 20/2015, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, og ákvörðun PFS nr. 22/2016, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum föstum almennum talsímanetum. Framkvæmd og niðurstaða verðsamanburðarins er nánar tilgreind í þeim ákvörðunardrögum sem hér eru lögð fram til samráðs. 

Samkvæmt ákvörðunum PFS nr. 20/2015 og nr. 22/2016 skal stofnunin beita verðsamanburði til að ákvarða hámarks lúkningarverð hér á landi eins og gert hefur verið síðustu ár. PFS skal taka ákvörðun um hámarks lúkningarverð íslenskra fjarskiptafyrirtækja, eigi síðar en 1. nóvember ár hvert að undangengnu innanlandssamráði og samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).  

Lúkningarverð í heildsölu lækkuðu hér á landi eftir að PFS fór að ákvarða þau út frá verðsamanburði í samræmi við tilmæli ESA varðandi afskipti eftirlitsstofnana af lúkningarverðum í farsímanetum og föstum netum. Miðað við fyrirhugaða niðurstöðu PFS mun verð fyrir farsímalúkningu hins vegar hækka um næstu áramót en verð fyrir lúkningu í föstum netum helst óbreytt. 

Núverandi verð fyrir lúkningu símtala, sem gilda áfram til 31. desember 2019, er 0,96 kr./mín. í farsímanetum en 0,12 kr./mín. í fastanetum. Fyrirhuguð niðurstaða PFS, sem hér er lögð til samráðs, er að frá og með 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2020 skuli lúkningarverð vera 1,02 kr./mín. í farsímanetum hér á landi en 0,12 kr./mín. í fastanetum.  

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 30. ágúst nk. PFS hyggst svo senda uppfærð drög að ákvörðun til samráðs hjá ESA. 

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is) 

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. 

Skjöl:
Drög að ákvörðun um heildsöluverð lúkningar í föstum talsímanetum (pdf)
Drög að ákvörðun um heildsöluverð lúkningar í farsímanetum (pdf)
Viðauki I: Gengistafla 2019 (pdf)

Til baka