Hoppa yfir valmynd

Óheimilt að hljóðrita símtal án undanfarandi tilkynningar.

Tungumál EN
Heim
25. janúar 2019

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 28/2018 um hljóðritun símtals án tilkynningar. Ákvörðunin varðar kvörtun neytanda þess efnis að símtal hans við félagið Islandus ehf. (Islandus) var hljóðritað án hans vitundar en samkvæmt 1. mgr. 48. gr. fjarskiptalaga er hljóðritun símtals óheimil án þess að viðmælanda sé tilkynnt um það í upphafi þess nema í þeim undantekningartilfellum sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. ákvæðisins.

Islandus ehf. er ekki opinber stofnun né fyrirtæki sem starfar í þágu þjóðar- og almannaöryggis og  kom því undantekning skv. 3. mgr. 48. gr. fjarskiptalaga ekki til skoðunar í málinu. Undanþága frá þeirri skyldu að tilkynna viðmælanda sínum í upphafi símtals um hljóðritun getur því aðeins byggst á þeirri undantekningu sem kveðið er á um í 2. mgr. 48. gr., þ.e. að ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.

Af gögnum málsins mátti ekki ráða að kvartanda hafi verið tilkynnt um að símtalið væri hljóðritað. Að áliti PFS eru viðskipti og starfsemi Islandus ekki það sértæk í eðli sínu, umfram aðra viðskipta- og þjónustustarfsemi hér landi, að það gefi viðskiptavinum Islandus réttmætt tilefni til að álykta að símtöl þeirra við fyrirtækið séu hljóðrituð. PFS telur að í ljósi sjónarmiða um friðhelgi einkalífs og persónuvernd beri að túlka undantekningarákvæði 2. mgr. 48. gr. fjarskiptalaga þröngt og leggja áherslu á skilyrði ákvæðisins um að ótvírætt hafi mátt ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritun. PFS taldi það skilyrði ekki vera uppfyllt.  Í því sambandi dugar ekki almenn tilkynning á heimasíðu fyrirtækis, né yfirlýsing í einstaka tölvupóstum, til að fullnægja áskilnaði ákvæðisins.

Með tilliti til almennra lögskýringarsjónarmiða um að túlka beri undantekningarákvæði 2. mgr. 48. gr. fjarskiptalaga þröngt og þeirra mikilvægu réttinda sem 1. mgr. 48. gr. laganna er ætlað að tryggja, var það niðurstaða PFS að félagið hafi brotið gegn síðarnefnda ákvæðinu með því að hafa ekki tilkynnt kvartanda í upphafi símtals að það yrði hljóðritað. Stofnunin beindi því til félagsins að tryggja að hljóðritanir símtala væru í samræmi við ákvæðið svo að ekki færi gegn stjórnarskrárvörðum réttindum manna um friðhelgi einkalífs. 

Sjá ákvörðunina á vef PFS.

Til baka