Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS nr. 27/2018 um tilboð Nova á Apple TV 4K með ljósleiðara

Tungumál EN
Heim
10. janúar 2019

Ákvörðunin varðar kvörtun Símans hf. til PFS vegna tilboðs Nova hf. á Apple TV tæki með ljósleiðaraþjónustu síðarnefnda félagsins. Viðskiptavinum Nova stóð til boða að kaupa Apple TV 4K á 9.990 kr. í stað 24.990 kr. en tilboðið miðaðist við 12 mánuði í ljósleiðaraþjónustu félagsins. Ef að áskrifandi sagði þjónustunni upp innan þess tíma þá þurfti hann að greiða upp mismun á tilboðsverði og fullu verði. Síminn taldi þetta skilyrði Nova fyrir afslættinum fara gegn 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga  en ákvæðið kveður á um að óheimilt sé í samningi að kveða á um lengri binditíma áskrifenda en sex mánuði og krafðist Síminn þess að PFS bannaði umrætt tilboð.

Að mati Nova fól tilboðið ekki í sér að áskrifandi að ljósleiðaraþjónustu hjá Nova væri bundinn í viðskiptum við félagið, hvorki um lengri né skemmri tíma. Áskrifandi gæti hætt með ljósleiðaraþjónustuna hvenær sem hann vildi.

PFS lítur svo á að í tilboðinu felist óbein bindingaráhrif  sem hvetja áskrifendur til þess að bindast í viðskiptum við Nova lengur en sex mánuði. Áskrifendur þurfa að greiða félaginu u.þ.b. 7.500 kr. vegna notendabúnaðarins ef þeir segja upp ljósleiðaraþjónustu eftir sex mánuði, 6.250 kr. eftir sjö mánuði og 5.000 kr. eftir átta mánuði o.s.frv. Þó að ekki sé um eiginlegt uppsagnargjald að ræða þá er ljóst að gjaldið er bundið við þann fjölda mánaða sem neytandi er í áskrift við Nova um fjarskiptaþjónustuna.

Að mati PFS þarf ávallt að hafa í huga tilgang 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga sem er fyrst og fremst neytendavernd, að efla samkeppni t.d. með því að stuðla að hreyfanleika neytenda milli fjarskiptafélaga, gera verðlagningu sýnilegri og draga úr aðgangshindrunum fyrir nýja aðila á markaði. Stríði tilboð á fjarskiptaþjónustu eða tilboð sem er tengt þeirri þjónustu að einhverju leyti gegn framangreindu getur það ekki talist samrýmast ákvæði 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga um sex mánaða hámarksbinditíma. Það var því niðurstaða PFS að tilboð Nova gangi gegn fyrrnefndu ákvæði og skýrist það einkum af því mati stofnunarinnar að gjald sem tilkomið er vegna þjónustuflutnings verður ótvírætt hindrun í vegi þeirra að því er varðar frelsi neytenda til að skipta um þjónustuveitanda.

Sjá nánar um ákvörðunina á vef PFS.

 

Til baka