Hoppa yfir valmynd

Póst- og fjarskiptastofnun hefur fallist á umsókn Mílu um afmörkun á alþjónustuskyldum félagsins

Tungumál EN
Heim
7. september 2017

Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 4/2016 hvílir sú skylda á Mílu að veita tengingu við almenna fjarskiptanetið og nær kvöðin til landsins alls. Í ákvörðuninni er jafnframt að finna heimild fyrir PFS til að veita undanþágu frá landfræðilegri afmörkun kvaðarinnar gegn rökstuddri beiðni þar um.

Með beiðni, dags. 25. apríl sl. sótti Míla um undanþágu frá alþjónustu, í eftirfarandi sveitarfélögum:

Helgafellssveit og Eyja og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi
Skagabyggð á Skaga
Tjörneshreppi
Ásahreppi

Meginröksemd fyrirtækisins var að með tilkomu nýs ljósleiðaranets í þessum sveitarfélögum hafi virkum koparheimtaugum í þessum sveitarfélögum fækkað verulega.

Við meðferð málsins kallaði stofnunin m.a. eftir upplýsingum frá þeim sveitarfélögum sem staðið höfðu að uppbyggingu viðkomandi ljósleiðaraneta. Í þeim kom m.a. fram að hin nýju net höfðu verið lögð til allra lögheimila og fyrirtækja í viðkomandi sveitarfélögum. Samhliða var kallað eftir nánari upplýsingum frá Mílu um hvert tengihlutfall fyrirtækisins væri orðið eftir að hin nýju net hófu starfsemi. Samkvæmt svörum Mílu var tengihlutfallið á bilinu 4-37%.

Einnig efndi stofnunin til samráðs um almenn skilyrði sem skyldi leggja til grundvallar við mat á því hvort forsendur væru til staðar til að aflétta alþjónustukvöð Mílu svæðisbundið, þar sem fjallað var um að útbreiðsla staðbundins nets væri a.m.k. 90%, tengihlutfall við net alþjónustuveitanda undir 50% og kostnaður þeirra sem vilja tengjast við hið nýja staðbundna ljósleiðarnet væri ekki hærri en kr. 350.000,-.
 
Það var niðurstaða PFS að útbreiðsla hinna nýju neta, kostnaður við að tengjast þeim, sem og tengihlutfall styddi við umsókn Mílu um að rétt væri að fella alþjónustukvöð fyrirtækisins niður í þeim sveitarfélögum sem umsóknin náði til.

Einnig var kveðið á um 6 mánaða tilkynningarfrest til handa þjónustuveitanda viðkomandi notenda ef Míla hygðist loka aðgangsneti fyrirtækisins í viðkomandi sveitarfélögum. Heimilt er að loka fyrr með samþykki viðkomandi.

Sjá nánar: Ákvörðun PFS nr. 11/2017.

Til baka