Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS. Framkvæmd Íslandspósts á útburði póstsendinga vegna atkvæðagreiðslu um kjarasamninga í samræmi við lög

Tungumál EN
Heim
3. apríl 2017

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 18/2016 um framkvæmd útburðar Íslandspósts ohf. (ÍSP) á póstsendingum vegna atkvæðagreiðslu um kjarasamning ASÍ og SA.

Ágreiningur aðila snérist um framkvæmd útburðar ÍSP á póstsendingum vegna atkvæðagreiðslu um kjarasamning á milli Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins. (SA). Hélt ASÍ því fram að ÍSP hafi borið að bera út póstsendingar í samræmi við utanáskrift eða á skráð lögheimili viðtakanda. ÍSP hafði hins vegar endursent til ASÍ rúmlega 3000 bréf af um 75.000.  Ástæða endursendingarinnar var að ÍSP hafði upplýsingar um að viðkomandi aðilar byggju ekki lengur á umræddum heimilisföngum og byggði félagið þær upplýsingar m.a. á upplýsingum úr svokölluðum póstfangagrunni, þar sem félagið heldur utan um staðsetningu íbúa landsins í því skyni að auðvelda útburð og gera hann skilvirkari.

Í ákvörðuninni komst PFS að þeirri niðurstöðu að framkvæmd ÍSP hafi verið í samræmi við ákvæði 4 mgr. 31. gr. laga um póstþjónustu, þar sem kveðið er á um hvert afhenda skuli póstsendingar. Einnig taldi stofnunin að framkvæmd ÍSP hafi verið í samræmi við 1. mgr. 32. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að póstrekendur skuli gera allar eðlilegar ráðstafanir til að koma póstsendingum til skila og að endursenda skuli póstsendingar vegna rangs eða ónógs heimilisfangs.

Þá var ekki fallist á kröfu ASÍ um að samtökin ættu rétt á endurgreiðslu vegna þeirra póstsendinga sem komust ekki til skila, né ættu rétt á skaðabótum vegna framkvæmdar ÍSP.

Úrskurðarnefnd tekur í úrskurði sínum undir þessi sjónarmið PFS og staðfestir eins og áður segir ákvörðun stofnunarinnar.

Sjá úrskurðinn í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 8/2016

 

 

Til baka