Hoppa yfir valmynd

Samráð um númer fyrir samskipti milli tækja og hluta

Tungumál EN
Heim
16. nóvember 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) kallar nú eftir opnu samráði vegna fyrirhugaðrar úthlutunar númera fyrir samskipti milli tækja. Um er að ræða það sem á ensku hefur verið kallað M2M (machine to machine) en er kallað á íslensku TíT (tæki í tæki).

TíT vísar til þess þegar tæki og hlutir geta haft bein samskipti sín á milli, bæði þráðlaust og í fastlínukerfum. Slík samskipti fara nú mjög hratt vaxandi m.a. vegna örrar tækniþróunar sem byggist á næstu kynslóðar fjarskiptakerfum og lækkunar kostnaðar í farsíma- og farnetskerfum. Dæmi um tæki og hluti sem byggja á TíT samskiptum eru t.d. faxtæki, viðvörunarkerfi, sjálfsalar, alls kyns tæki í iðnaðarframleiðslu og nú eru t.d. sjálfkeyrandi bifreiðar að ryðja sér til rúms.

Hið svokallaða „internet hlutanna“ (e. Internet of Things), þar sem stór hluti tækja og hluta í kringum okkur hefur bein samskipti við aðra hluti eða tæki er í gríðarlega örri þróun. Um leið vex þörfin fyrir númer og kóða fyrir þessi samskipti. Eftir umræður á alþjóðlegum vettvangi um tilhögun slíkra úthlutana varð niðurstaðan sú að hvert land fari sínar eigin leiðir með úthlutanir á númerum fyrir TíT. Þó hefur BEREC, samstarfsvettvangur evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana, lagt til að löndin opni sérstaka númeraröð eða skilgreini sérstaka númeraröð innan farsímanúmera fyrir TíT samskipti.

PFS hefur hingað til tengt farsímanúmer SIM kortum og ekki leyft svokallaðar „over the top“ þjónustur, en það eru þjónustur eins og t.d. smáforrit í snjallsímum sem hafa númer en tengjast ekki SIM kortum notandans.

Sú TíT þjónusta sem verið hefur til staðar hingað til hér á landi hefur notað hefðbundin fastlínu- eða farsímanúmer og í dag eru um 24.000 númer notuð fyrir slíka þjónustu á Íslandi.  Hin öra þróun sem þegar er hafin kallar hins vegar á breytingar og vitað er um áhuga nokkurra aðila fyrir aukinni TíT þjónustu hér á landi.

Því telur PFS nauðsynlegt að skilgreina sérstakar númeraraðir fyrir þjónustuna. Til þess þarf að breyta núgildandi reglum um númer. Stofnunin leggur til varfærna nálgun við breytingarnar, þannig að almennt skuli farsímanúmer áfram tengjast símkorti (SIM), en ekki smáforritum.

PFS leggur því til eftirfarandi breytingu á reglum nr. 590/2015 um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta. Breytingartillagan varðar 19. lið 7. gr. reglnanna.

Þar segir nú:

Númer sem byrja á 3, skulu vera 9 stafa löng og skal þeim úthlutað til fyrirtækja sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á almenna farsímaþjónustu, þ.m.t. fyrir talhólf notenda í farsímaþjónustu. Óheimilt skal að nota slík númer í virðisaukandi þjónustu.

Lagt er til að þessum lið verði breytt og hljóði svo:

Númer sem byrja á 3, skulu vera 9 stafa löng. Númer sem byrja á 35 X XXX XXX skal úthlutað til notkunar fyrir tæki-í-tæki (TíT) þjónustur (e. M2M) vegna tækja sem eru framleidd innanlands eða eru flutt inn til innlendrar notkunar. Númer fyrir slíka þjónustu skulu ávallt tengjast símkorti (SIM). Óheimilt að nota númer sem byrja á 3 í virðisaukandi þjónustu.

Hér með kallað eftir samráði um þessa breytingatillögu við hagsmunaaðila og aðra sem láta sig málið varða.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 30. nóvember nk.

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Sigurðsson (netfang: bjarni(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni. 

 

Til baka