Hoppa yfir valmynd

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum

Tungumál EN
Heim

PFS hefur ákvarðað ný heildsöluverð fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum

28. október 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 17/2016 um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2/2008 og 3/2008). Mælt er fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarksverða fyrir upphaf og lúkningu símtala. Nánari lýsingu á þeim viðmiðum sem fylgt var við verðsamanburðinn má finna í ákvörðuninni hér að neðan.

Samkvæmt ákvörðuninni skal heildsölugjald fyrir upphaf símtala í föstu talsímaneti Símans vera að hámarki 0,50 kr./mín. Þá skal heildsölugjald fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum vera 0,14 kr./mín. og skal það verð gilda sem hámarksverð hjá Símanum, Vodafone, Nova, Símafélaginu og Hringdu. 
Hin nýju heildsöluverð taka gildi frá og með 1. janúar 2017.

Ákvörðun PFS um heimsölugjaldskrá byggir á ákvörðun PFS nr. 36/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Samkvæmt þeirri ákvörðun skal PFS ákvarða gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í fastanetinu með verðsamanburði. 

Á tímabilinu 11. ágúst til 1. september sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í fastanetinu. Athugasemdir bárust frá Símanum hf.  Gerð er grein fyrir athugasemdum Símans hf. og afstöðu PFS í ákvörðuninni.

Þá voru drög að ákvörðuninni send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 27. september sl. Athugasemdir ESA hafa nú borist og gerði stofnunin ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrög PFS. Athugasemdir ESA má finna í viðauka II, sjá nánar í skjölunum hér fyrir neðan.

Ákvörðun PFS nr. 17/2016 (pdf)
Viðauki I gengistafla (pdf)
Viðauki II Álit ESA (pdf)

Til baka