Hoppa yfir valmynd

Samráð um markaðsgreiningar á mörkuðum fyrir aðgang og upphaf í talsímaneti

Tungumál EN
Heim

Samráð um markaðsgreiningar á mörkuðum fyrir aðgang og upphaf í talsímaneti

7. október 2016

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á mörkuðum fyrir aðgang og upphaf símtala í fasta almenna talsímanetinu.

Í fyrsta lagi er um að ræða markað 1 í eldri tilmælum eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008, þ.e. smásölumarkað fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu fyrir heimili og fyrirtæki.

Í öðru lagi er um að ræða markað 2 í eldri tilmælum ESA frá 2008, þ.e. heildsölumarkað fyrir upphaf símtala í fasta almenna talsímanetinu.

Þessir markaðir voru síðast greindir með ákvörðunum PFS nr. 36/2012 frá 14. desember 2012 og PFS nr. 8/2013 frá 18. júlí 2013. Síminn var þá útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á báðum mörkuðunum. Heildsölukvaðir voru lagðar á Símann á markaði 1, um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og kostnaðarbókhald. Engar smásölukvaðir voru hins vegar lagðar á fyrirtækið. Á markaði 2 fyrir upphaf símtala í fasta almenna talsímanetinu voru lagðar heildsölukvaðir á Símann um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.

Þar sem framangreindir markaðir eru ekki lengur í tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 2016 þarf PFS að framkvæma mat á því hvort þeir uppfylli enn þau skilyrði sem þarf til þess að til greina komi að beita fyrirfram kvöðum (þriggja skilyrða prófið). Það er frumniðurstaða PFS að hér á landi séu ekki lengur fyrir hendi verulegar aðgangshindranir á viðkomandi mörkuðum og þar með séu ekki skilyrði til að viðhalda þeim sem kvaðabundnum mörkuðum. Stofnunin horfir m.a. til þess að með aukinni þróun og útbreiðslu IP-neta og netsíma (VoIP) þá sé aðgengi að báðum ofangreindum mörkuðum orðið auðveldara, m.a. vegna minni fjárfestingaþarfa. Auk þess gefi kvaðir á heildsölumarkaði fyrir bitastraum möguleika á því að veita netsímaþjónustu í gegnum leigðan bitastraumsaðgang. Því verði ekki lengur talið að miklar og viðvarandi aðgangshindranir séu til staðar.

Stofnunin hefur því í hyggju að leysa Símann undan kvöðum á viðkomandi mörkuðum í árslok 2017 þannig að fjarskiptafyrirtæki í heildsöluviðskiptum við Símann hafi hæfilegan aðlögunartíma til að mæta breyttum aðstæðum.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 7. nóvember n.k.

Nánari upplýsingar veitir Guðmann Bragi Birgisson, netfang: gudmann(hjá)pfs.is.

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:

Frumdrög að greiningu á smásölumarkaði fyrir aðgang að fasta almenna talsímanetinu (markaður 1/2008) og heildsölumarkaði fyrir upphaf símtala í fasta almenna talsímanetinu (markaður 2/2008)


 

 

Til baka