Hoppa yfir valmynd

Hátt í þreföld aukning á hliðruðu sjónvarpsáhorfi á síðustu fjórum árum

Tungumál EN
Heim

Hátt í þreföld aukning á hliðruðu sjónvarpsáhorfi á síðustu fjórum árum

2. febrúar 2016

Með breyttum aðstæðum í flutningi sjónvarpsefnis um fjarskiptanet, þar sem svokallað hliðrað áhorf verður stöðugt algengara munu æ fleiri verkefni sem tengjast fjölmiðlum koma inn á borð PFS.

Hliðrað áhorf er það áhorf á sjónvarpsefni sem fram fer eftir upphaflegan útsendingartíma, en innan þess tíma sem áskrifandi hefur aðgang að efninu án þess að borga sérstaklega fyrir það. Slíkt áhorf eftir á, t.d. í tímaflakki/tímavél sem er innan eins sólarhrings frá útsendingu, eða frelsi, byggist á gagnvirkri sjónvarpsþjónustu sem fram fer á fjarskiptanetum og því fellur flutningur þess að hluta til innan fjarskiptalaga.

Aukning á hliðruðu áhorfi hefur einnig þýðingu varðandi framkvæmd ákvæða fjölmiðlalaga sem snúa beint að hlutverki Póst- og fjarskiptastofnunar, ekki síst VII. kafla laganna þar sem fjallað er um reglur um flutning myndefnis.

Til þess að fá yfirlit yfir hversu hröð þessi þróun er ákvað PFS fá rannsóknarfyrirtækið Gallup, sem hefur mælt sjónvarpsáhorf með rafrænum hætti frá árinu 2008, til að gera skýrslu þar sem hlutfall hliðraðs áhorfs á innlendar sjónvarpsstöðvar yrði sérstaklega skoðað. Gallup hefur nú afhent stofnuninni skýrslu sína, en hún sýnir þessa þróun á síðustu fjórum árum, frá upphafi ársins 2012 til loka ársins 2015.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að á þessu tímabili hefur hliðrað áhorf hátt í þrefaldast, farið úr því að vera 4,4% árið 2012 í 13,6% árið 2015. Þetta sýnir mjög ákveðna þróun í átt til þess að síaukinn hluti áhorfs á innlendar sjónvarpsstöðvar fari fram eftir upphaflegan útsendingartíma, ýmist í tímaflakki/tímavél eða frelsi.

Hér fyrir neðan má nálgast skýrsluna í heild, en hafa ber eftirfarandi í huga þegar skýrslan er skoðuð:

  • Eingöngu er um að ræða innlendar sjónvarpsstöðvar.
  • Línulegt áhorf er það áhorf sem á sér stað á þeim tíma sem dagskrárliður er sendur út en hliðrað áhorf er allt áhorf sem á sér stað eftir upphaflegan útsendingartíma.
  • Áhorf á plússtöðvar telst vera línulegt áhorf, enda er horft á útsendinguna á þeim tíma sem útsendingin er í gangi. Þetta áhorf er sýnt sem hluti af áhorfi á aðalrás viðkomandi plússtöðvar.
  • Eftirfarandi stöðvar voru mældar allt mælitímabilið: Bíóstöðin,Gullstöðin, RÚV, Stöð 2 og SkjárEinn.
    Krakkastöðin var mæld út febrúar 2015.
    Bravó (áður Popp TV) og RÚV 2 komu inn í mælinguna í ágúst 2012, Stöð 3 kom inn í mælinguna í september 2013, N4kom inn í mælinguna í september 2014, Hringbraut kom inn í mælinguna í ágúst 2015. ÍNN er inni í mælingunni frá september til nóvember 2015.

Sjá skýrsluna í heild:
Þróun á sjónvarpsáhorfi og hlutdeild hliðraðs áhorfs 2012 – 2015

 

Til baka