Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir aðgang að koparheimtaugum

23. desember 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að koparheimtaugum og tengigrindum. Þær vörur sem umrædd verðskrá Mílu nær yfir tilheyra markaði fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum sem er markaður nr. 4 samkvæmt tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2008.

Samkvæmt meðfylgjandi drögum að ákvörðun hyggst PFS samþykkja kostnaðargreiningu Mílu með þeim breytingum sem gerðar voru við meðferð greiningarinnar hjá stofnuninni.

Drög þessi byggja á ákvörðun PFS nr. 21/2014 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum heimtauga og bitastraums. Í þeirri ákvörðun var kveðið á um breytingu á uppbyggingu gjaldskrár vegna aðgangs að koparheimtaugum. Eftir breytinguna telst fullur aðgangur vera grunnaðgangur (grunnverð) heimtaugar og ávallt er greitt fullt verð fyrir heimtaug í notkun óháð nýtingu hennar. Jafnframt var skiptingu kostnaðar milli efra og neðra tíðnisvið heimtaugarinnar í skiptum aðgangi breytt. Kallast það skiptur aðgangur þegar eitt fjarskiptafyrirtæki nýtir efri hluta tíðnisviðs heimtaugar með DSL eða samsvarandi tækni, en aðgangur að neðra tíðnisviði heimtaugarinnar er nýttur af öðru fjarskiptafyrirtæki á sama tíma fyrir talsímaþjónustu.

Niðurstaða kostnaðargreiningar Mílu er að gjaldskráin hækki að meðaltali um 11% frá núverandi gjaldskrá fyrir mánaðargjöld, sem tók gildi 1. ágúst 2013. Þó að meðaltali sé gjaldskráin að hækka munu einstaka gjaldskrárliðir lækka í verði. Verð fyrir fullan aðgang að heimtaug verður 1.495 krónur á mánuði án vsk. en ef um skiptan aðgang er að ræða verður verð fyrir efra tíðnisviðið 598 kr. og 897 kr. fyrir neðra tíðnisviðið. Þá gera ákvörðunardrögin ráð fyrir að verð fyrir heimtaug að götuskáp (e. sub loop) verði 85% af verði fyrir aðgang að heimtaug sem liggur alla leið í símstöð.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 22. janúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is). PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

 Sjá samráðsskjalið:
Frumdrög: Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir koparheimtaugar (Markaður 4)

 

 

 

Til baka