Hoppa yfir valmynd

Númera- og þjónustuflutningur afgreiddur innan sólarhrings í 98% tilvika

Tungumál EN
Heim

Númera- og þjónustuflutningur afgreiddur innan sólarhrings í 98% tilvika

23. desember 2015

Í apríl 2015 boðaði Póst- og fjarskiptastofnun fyrirhugaða úttekt á framkvæmd fjarskiptafyrirtækja á númera- og þjónustuflutningi. Úttektin miðaði sérstaklega að því að kanna hvort beiðnir um þjónustuflutning væru afgreiddar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. reglna nr. 617/2010 um númera- og þjónustuflutning auk þess sem horft var til þess hvort synjanir um númera- og þjónustuflutning væru í samræmi við 8. gr. fyrrnefndra reglna.

PFS birtir nú skýrslu um úttekt á afgreiðslutíma númeraflutningsbeiðna sem byggir á gögnum sem stofnunin óskaði eftir frá Hinu íslenska númerafélagi (HÍN) um afgreiðslu flutningsbeiðna á tveggja vikna tímabili. Út frá þessum gögnum voru unnar upplýsingar um meðaltíma númera- og þjónustuflutnings, skipt eftir farsíma- og talsímaþjónustu, sundurliðað eftir einstökum fjarskiptafyrirtækjum.

Í skýrslunni er lýst þeirri aðferðafræði sem beitt var og birtar tölfræðiupplýsingar um þann tíma sem leið frá því að beiðni um númera- og þjónustuflutning er send til HÍN og þar til afgreiðslu er lokið. Út frá þessum tölum eru niðurstöður rýndar og ályktanir dregnar. Meginniðurstaðan er að rafrænt afgreiðsluferli HÍN sé skilvirkt og þjóni hlutverki sínu með ágætum.

Um er að ræða fyrri áfanga flutningsbeiðna, þ.e. þær aðgerðir sem snúa að því fjarskiptafyrirtæki sem er að missa viðskipvin til annars fjarskiptafyrirtækis. Niðurstöðurnar sýna að flutningsbeiðnir í HÍN eru afgreiddar innan sólarhrings í 98% tilvika. Benda niðurstöðurnar því til þess að ekki sé um að ræða óþarfa tafir eða hindranir á því að neytendur á fjarskiptamarkaði geti hratt og örugglega fært viðskipti sín á milli fjarskiptafyrirtækja

Sú úttekt sem stofnunin stóð að og skýrsla þessi fjallar um er nú framkvæmd í fyrsta sinn, að frumkvæði stofnunarinnar. Tildrög úttektarinnar voru ekki þau að stofnuninni hefðu borist fjöldi kvartana vegna númera- og þjónustuflutninga, eða vegna gruns um vankanta á framkvæmd félaganna, heldur þvert á móti. Stofnunin taldi það hins vegar samræmast eftirlitshlutverki sínu að kanna að eigin frumkvæði framgang verkferla fyrirtækjanna og HÍN og hvort þeir samrýmdust m.a. reglum um númera- og þjónustuflutning. Er að því stefnt að úttekt sem þessi verði framkvæmd reglulega.

 Greining PFS á afgreiðslutíma númeraflutningsbeiðna

 

 


 

Til baka