Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Mílu fyrir Ethernetþjónustu á stofnleigulínum

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Mílu fyrir Ethernetþjónustu á stofnleigulínum

22. desember 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 33/2015. Þar samþykkir stofnunin, að svo stöddu, viðmiðunartilboð Mílu ehf. frá haustinu 2014 um Ethernetþjónustu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína. Eigi síðar en 12. febrúar nk. skal Míla skila PFS uppfærðu viðmiðunartilboði um leigulínuþjónustu, þ.m.t. um umrædda Ethernetþjónustu. PFS mun í kjölfar þess yfirfara hið upprunalega viðmiðunartilboð og leggja til nauðsynlegar breytingar á því, ef þurfa þykir, áður en það fer í innanlandssamráð og samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Að því búnu mun PFS taka ákvörðun um endanlega útfærslu umrædds viðmiðunartilboðs.

ESA gerði ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrögin en skoraði á PFS að ljúka heildarendurskoðun á viðmiðunartilboði Mílu um leigulínuþjónustu sem fyrst.

Með ákvörðun PFS nr. 15/2014, dags. 4. júlí 2014, heimilaði PFS Mílu að hefja veitingu umræddrar Ethernet stofnleigulínuþjónustu, sem byggir á MPLS-TP tækni, áður en PFS tæki endanlega ákvörðun um skilmála og verð fyrir umrædda þjónustutegund. Samkvæmt þeirri ákvörðun skyldi Míla vinna að frekari þróun vörunnar í takt við sanngjarnar, eðlilegar og málefnalegar þarfir og óskir viðskiptavina félagsins. Míla skyldi tryggja fullt jafnræði á milli fjarskiptafyrirtækja við þá þróun, m.a. varðandi ákvörðun um frekari útbreiðslu þjónustunnar um landið.

Ákvörðun PFS nú varðar skilmála fyrir veitingu umræddrar Ethernetþjónustu í stofnleigulínunetum Mílu, aðra en gjaldskrá. Gjaldskrá fyrir þjónustuna var samþykkt með ákvörðun PFS nr. 23/2015 frá 12. ágúst sl.

 

 

Til baka