Hoppa yfir valmynd

Ágreiningur Símans og Vodafone um Tímavél og Frelsi í sjónvarpi heyrir ekki undir PFS heldur dómstóla

Tungumál EN
Heim

Ágreiningur Símans og Vodafone um Tímavél og Frelsi í sjónvarpi heyrir ekki undir PFS heldur dómstóla

18. desember 2015

Í dag tók Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ákvörðun nr. 30/2015 þess efnis að ágreiningur Símans hf. (Síminn) og Fjarskipta hf. (Vodafone) um Tímavél og Frelsi í sjónvarpi eigi ekki undir valdsvið PFS. Þar með vísar stofnunin frá kröfu Símans um að að PFS skeri úr um hvort Tímavél Vodafone og Frelsi í sjónvarpi teljist línuleg eða ólínuleg myndmiðlun í skilningi fjölmiðlalaga.

Með Tímavél Vodafone er unnt að flakka allt að sólarhring aftur í tímann og horfa á dagskrárliði sem sýndir hafa verið á því tímabili. Með Frelsi geta notendur sótt sér myndefni að eigin vali og horft á það í heild eða að hluta þegar þeir svo kjósa lengra aftur í tímann en einn sólarhring.

Síminn taldi að uppi væri ágreiningur milli félaganna um dreifingu á sjónvarpsefni Símans (SkjárEinn) á sjónvarpsdreifikerfum Vodafone sem ekki hefði tekist að ná samkomulagi um. Síminn telur að PFS beri að skera úr slíkum ágreiningi, með stoð í VII. kafla fjölmiðlalaga nr. 38/2011þar sem fjallað er um flutning myndefnis. Krafa Símans er sú að PFS skeri úr því álitaefni hvort Tímavél Vodafone og Frelsi í sjónvarpi teljist línuleg eða ólínuleg myndmiðlun í skilningi fjölmiðlalaga. Að mati Símans hafi Vodafone verið óheimilt að miðla sjónvarpsdagskrá SkjásEins með slíkum hætti frá og með 1. október sl. þegar hafið var að dreifa dagskrá SkjásEins í opinni dagskrá.

Ákvæði 2. mgr. 46. gr. fjölmiðlalaga, sem Síminn byggir málflutning sinn á, kveður á um að aðili geti beint máli til PFS ef ekki tekst samkomulag um flutning myndefnis, eða ef til ágreinings kemur um flutning á síðari stigum. Stofnunin skal þá leita sátta með aðilum en náist þær ekki skal skorið úr ágreiningi með ákvörðun PFS, að fenginni umsögn fjölmiðlanefndar.

Vodafone er ósammála því að slíkur ágreiningur sé uppi á grundvelli flutningsréttarreglna fjölmiðlalaga, enda sé sá þjónustusamningur milli aðila sem gildir til 1. maí 2016 skýr hvað varðar heimildir Vodafone í þessu sambandi. Samkvæmt þeim samningi eigi Vodafone samningsbundinn rétt til að veita viðskiptavinum sínum aðgang að efni SkjásEins, með Tímavél og Frelsi, út samningstímann. Umræddur þjónustusamningur hafi ekki verið byggður á umræddum flutningsréttarákvæðum fjölmiðlalaga heldur á frjálsum samningum á milli aðila frá árinu 2011. Vodafone hafi aldrei óskað eftir flutningi á grundvelli fjölmiðlalaga.

Vodafone neitaði að verða við ósk Símans um að láta af miðlun SkjásEins í Tímavél frá og með 1. október sl. Frá þeim tíma hefur Vodafone hins vegar ekki getað boðið upp á efni af SkjáEinum í Frelsi í sjónvarpi, þar sem Síminn gat lokað fyrir þá miðlun. Vodafone kærði þær aðgerðir Símans til Samkeppniseftirlitsins þann 6. október sl. og taldi Símann misnota markaðsráðandi stöðu sína. Krafðist Vodafone þess að Samkeppniseftirlitið tæki bráðabirgðaákvörðun í málinu. Því hafnaði Samkeppniseftirlitið þann 13. nóvember sl. en tók málið til hefðbundinnar málsmeðferðar.

PFS tekur undir með Vodafone um að umræddur ágreiningur varði túlkun á þjónustusamningi aðila en ekki túlkun á flutningsreglum fjölmiðlalaga. Því beri, samkvæmt skýru orðalagi samningsins, að leysa úr ágreiningi í tengslum við hann fyrir dómstólum. PFS vísar því málinu frá.

Þess má geta að þann 16. desember sl. samþykkti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lögbannskröfu Símans og lagði lögbann við því að Vodafone tæki upp og miðlaði sjónvarpsefni SkjásEins með ólínulegum hætti. Síminn þarf, innan viku frá uppkvaðningu lögbannskröfu, að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til staðfestingar á lögbanninu. Vodafone hefur lýst því yfir að félagið muni taka til varna í því máli.

Þann 2. desember sl. barst PFS síðan erindi frá Vodafone þar sem farið var fram á að PFS taki bindandi ákvörðun og beini þeim fyrirmælum til Símans að félagið láti nú þegar af þeirri háttsemi að beina viðskiptum áhorfenda SkjásEins að eigin fyrirtæki, þ.e. Símanum sjálfum. Þetta sé í andstöðu við 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að beina viðskiptum viðskiptamanna að tengdu fjarskiptafyrirtæki.
Er þetta mál nú til meðferðar hjá stofnuninni.

Ákvörðun PFS nr. 30/2015 varðandi fyrrnefnda kröfu Símans hefur nú verið send málsaðilum og hafa þeir nokkra daga til að gera tillögur að útstrikunum mögulegra trúnaðarupplýsinga. Því verður ákvörðunin ekki birt fyrr en þriðjudaginn 22. desember nk.

 

 

Til baka