Hoppa yfir valmynd

Ísland í 3. sæti á heimsvísu í upplýsingatækni og fjarskiptum skv. skýrslu Alþjóðafjarskiptasambandsins.

Tungumál EN
Heim

Ísland í 3. sæti á heimsvísu í upplýsingatækni og fjarskiptum skv. skýrslu Alþjóðafjarskiptasambandsins.

16. desember 2015

Alþjóðafjarskiptasambandið, ITU, á rætur sínar að rekja til þess þegar fjarskipti hófust yfir lengri vegalengdir og milli landa. Sambandið heldur upp á 150 ára afmæli sitt á þessu ári, en frá 1947 hefur það verið ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Póst- og fjarskiptastofnun er aðili að ITU fyrir Íslands hönd.

Á sérstökum afmælisvef ITU, ITU150.org er að finna skemmtilega tímalínu yfir sögu sambandsins.

Eitt af hlutverkum Alþjóðafjarskiptasambandsins er að fylgjast með stöðu og þróun fjarskipta í ríkjum heims. Frá 2009 hefur verið gefin út árleg skýrsla þar sem metin er staða upplýsingasamfélagsins í ríkjum heims. Nýjasta skýrslan, Measuring the Information Society Report kom út þann 30. nóvember sl. Þar er ríkjum raðað á lista eftir einkunnum og niðurstöðum skv. 11 mælikvörðum sem notaðir eru til að mæla stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins. Einnig er birtur listi með heildareinkunnum ríkja, svokallaður IDI listi (ICT Development Index). Þar er 167 ríkjum um allan heim raðað í einkunnaröð og einnig er borið saman við niðurstöður frá árinu 2010.

Ísland er í 3. sæti þjóða á þessum heildareinkunnalista, næst á eftir Danmörku sem er í 2. sæti og Suður-Kóreu sem er á toppnum. Ísland heldur reyndar sæti sínu frá því 2010 en hefur hækkað í stigum.

Heildarniðurstöðurnar sýna stöðuga þróun upplýsingasamfélagsins í öllum löndunum á listanum, en mikill munur er þó bæði milli ríkja og svæða í heiminum.
Hér fyrir neðan má sjá 25 efstu löndin á heildareinkunnalistanum og eins og sjá má eru Norðurlöndin öll í meðal þjóðanna í efstu 12 sætunum.

 IDI Index 2015_first 25 countries

Mælikvarðarnir 11 sem ITU notar til þess að draga upp mynd af stöðu og þróun upplýsingasamfélagsins beinast að þremur meginþáttum, þ.e. aðgengi, notkun og kunnáttu, eða færni (e. skills).

Aðgengi

Ísland er í 2. sæti varðandi aðgengi eins og árið 2010 eins og sést á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir 25 efstu þjóðirnar á listanum. Mælikvarðarnir sem notaðir eru til að mæla aðgengi eru:

 • fastasímaáskriftir á hverja 100 íbúa
 • farsímaáskriftir á hverja 100 íbúa
 • hraði internetsambanda til útlanda mælt í bit/sek. á hvern notanda
 • hlutfall heimila þar sem eru tölvur
 • hlutfall heimila með internetaðgang

 ICT_access_index_2015_first25

Notkun

Ísland er í 8. sæti á listanum í notkun upplýsingatækni og fjarskipta og hefur hækkað um eitt sæti frá 2010. Mælikvarðarnir sem ITU notar til að mæla notkun eru:

 • hlutfall einstaklinga sem nota internetið
 • hlutfall þeirra sem hafa áskrift að fastri breiðbandstenginu
 • hlutfall þeirra sem hafa áskrift að þráðlausum háhraðatengingum (þ.m.t. gervihnattasambönd, þráðlaus fastasambönd og virk farnetssambönd með að lágmarki 256 kbit/s hraða).

 ICT_use_index_2015_first25_

Kunnátta/færni

Þriðji þátturinn snýr að kunnáttu eða færni (e. skills). Hér er Ísland í 10 sæti. Þessir mælikvarðar eru þeir einu sem ekki tengjast upplýsingatækninni beint og nú er unnið að endurskoðun á þeim, en í þessari skýrslu eru þetta sömu þættir og áður. Mælikvarðarnir eru:

 • hlutfall þeirra fullorðnu einstaklinga sem eru læsir (miðað er við 15 ára og eldri sem geta lesið og skrifað einfaldar setningar af skilningi og hafa einfalda reikningskunnáttu)
 • heildarhlutfall þeirra sem uppfylla skilyrði og eru skráðir í annars stigs nám (framhaldsskólastig)
 • heildarhlutfall þeirra sem uppfylla skilyrði og eru skráðir í þriðja stigs nám (nám eftir framhaldsskóla, háskólastig, sérnám)

ICT_skill_index_2015_first25

 Á upplýsingasíðu Alþjóðafjarskiptasambandsins um skýrsluna er hægt að nálgast hana í heild, ásamt öðru efni sem henni tengist, svo sem fréttatilkynningu, yfirlit yfir aðferðafræðina við vinnslu skýrslunnar o.fl.

Upplýsingar Póst- og fjarskiptastofnunar um stöðu og þróun á Íslandi er að finna undir tölfræði hér á vefnum og í ársskýrslum stofnunarinnar.

 

 

Til baka