Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir að Míla hafi brotið gegn kvöð um jafnræði og ekki staðið rétt að framkvæmdum við Ljósnetsvæðingu á Ísafirði

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir að Míla hafi brotið gegn kvöð um jafnræði og ekki staðið rétt að framkvæmdum við Ljósnetsvæðingu á Ísafirði

4. desember 2015

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum nr. 1/2015 staðfest ákvörðun PFS nr. 34/2014 um að Míla hafi brotið gegn kvöð um jafnræði og ekki staðið rétt að framkvæmdum við Ljósnetsvæðingu á Ísafirði.

Með hinni kærðu ákvörðun var leyst úr ágreiningi Snerpu ehf. og Mílu ehf. vegna VDSL væðingar félaganna í Holtahverfi á Ísafirði. VDSL kerfi Mílu er nefnt Ljósnet en VDSL kerfi Snerpu nefnist Smartnet. Sá tæknilegi munur er á VDSL þjónustu og hefðbundinni ADSL þjónustu að virki búnaðurinn er almennt staðsettur í símstöðvum í tilfelli ADSL tenginga en í götuskápum í tilviki VDSL tenginga. Þar sem virki búnaðurinn í tilviki VDSL er mun nær endanotandanum, ásamt því að byggja á nýrri tækni, eru þær tengingar mun öflugri og afkastameiri en hinar hefðbundnu ADSL tengingar.

Míla á og rekur grunnnet fjarskipta um allt land, þ.m.t. heimtauganet sem eru þær lagnir sem liggja úr símstöðvum í götuskápa og inn í heimili og fyrirtæki. Fyrirtækið er með umtalsverðan markaðsstyrk á þessu sviði og því hvílir sú kvöð á því að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að heimtauganeti sínu, svo fremi að slík beiðni sé sanngjörn og eðlileg. Í hverju tilviki ber Mílu að gæta jafnræðis milli þeirra fyrirtækja sem byggja rekstur sinn á heimtauganeti Mílu og eigin deilda sem veita samskonar þjónustu.

Snerpa hefur rekið ADSL þjónustu á Ísafirði um margra ára skeið og hefur á síðustu misserum verið að uppfæra kerfi sitt í VDSL. Þetta kallar á breytingar á aðgangi Snerpu að heimtaugakerfi Mílu. Í stað þess að hafa aðgang að símstöðvum fyrir búnað sinn þarf Snerpa að komast í götuskápa til að VDSL þjónustan verði virk.

Í ákvörðun sinni, sem nú hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd, komst PFS að þeirri niðurstöðu að Míla hafi brotið gegn þeirri jafnræðiskvöð sem hvílir á félaginu með því að veita Snerpu ekki nauðsynlegar upplýsingar eða leiðbeiningar í tengslum við VDSL væðingu beggja félaganna í Holtahverfi á Ísafirði. Ennfremur að Míla hefði ekki haft eðlilegt samráð við Snerpu um umrædda kerfisuppbyggingu, né tekið hæfilegt tillit til hagsmuna Snerpu sem samkeppnisaðila sem þegar var með þjónustu í rekstri í umræddu hverfi.

Í hinni kærðu ákvörðun var einnig leyst úr ágreiningi fyrirtækjanna um aðgang Snerpu að einstökum götuskápum Mílu í hverfinu. Niðurstaða PFS var að þar sem Snerpa fengi ekki beinan aðgang að tilteknum götuskáp þyrfti Míla að veita Snerpu fullnægjandi lausn sem gerði Snerpu eins setta og ef aðgangur að götuskáp hefði verið veittur.

Kæra Mílu var í 10 liðum og hafnaði úrskurðarnefnd þeim öllum og staðfesti hina kærðu ákvörðun PFS að öllu leyti. Þeirri kröfu Mílu var m.a. hafnað að ákvörðun PFS nr. 21/2014 (markaðsgreining á mörkuðum 4 og 5), sem leggur ýmsar kvaðir á Mílu á heimtaugamarkaði, gilti ekki þar sem form þeirrar ákvörðunar hefði ekki verið rétt. PFS leiðrétti orðalag þeirrar ákvörðunar nokkrum vikum eftir töku hennar og taldi úrskurðarnefnd PFS hafa verið stætt á því. Hefur sú ákvörðun því gilt að öllu leyti frá því að hún var tekin þann 12. ágúst 2014.

Þá staðfesti úrskurðarnefnd nú að sönnunarbyrði varðandi hugsanlega truflanahættu vegna aðgangsbeiðna að koparheimtauganeti Mílu hvíldi á því félagi en ekki aðgangsbeiðanda hverju sinni eða PFS.

Þá komst úrskurðarnefnd að þeirri niðurstöðu að hugtakið „aðgangur“ skyldi túlkað með víðtækum hætti, bæði í fjarskiptalögum og aðgangstilskipun ESB. Aðgangskvaðir þær sem hvíla á Mílu á umræddum markaði eru því víðtækar og ber því ekki að túlka þröngt.

Í kæru sinni taldi Míla einnig að ýmis ummæli í hinni kærðu ákvörðun PFS samræmdust ekki góðum stjórnsýsluháttum þar sem þau væru neikvæð í garð Mílu og lýstu óbilgirni stofnunarinnar í garð félagsins. Því vaknaði spurning um gildi umræddrar stjórnsýsluákvörðunar. Úrskurðarnefndin taldi að af gögnum málsins væri ljóst að PFS gerði ríkar kröfur til Mílu, sem er markaðsráðandi aðili á umræddum markaði, en að þær rúmuðust innan þess ramma sem leiddi af stöðu Mílu á markaði.

Snerpa kærði einnig hina umræddu ákvörðun og taldi sig eiga rétt á frekari aðgangi en PFS hafði talið sanngjarnan og eðlilegan. Með úrskurði sínum nr. 2/2015 hafnaði úrskurðarnefnd þeirri kröfu Snerpu og staðfesti ákvörðun PFS.

Sjá umrædda úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í heild:

 

Til baka