Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um kostnaðargreiningu Mílu á heildsölugjaldskrá fyrir Hraðbrautarsambönd

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um kostnaðargreiningu Mílu á heildsölugjaldskrá fyrir Hraðbrautarsambönd

19. október 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir Hraðbrautarsambönd og kallar eftir samráði um niðurstöðu hennar. Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf.

Fyrirhuguð ákvörðun kemur í stað ákvörðunar PFS nr. 24/2015 varðandi endurskoðun á gjaldskrá Mílu fyrir Hraðbrautarsambönd en sú gjaldskrá tók gildi 1. október 2015.

Niðurstaða kostnaðargreiningar á Hraðbrautarsamböndum er að leigugjald fyrir 1 Gb/s haldist óbreytt 95 þús. kr. á mánuði, en leigugjald fyrir 10 Gb/s lækki úr 160 þúsund kr. í 120 þúsund kr. á mánuði. Fram kom í greiningu Mílu að ástæða þessarar lækkunar sé sú að forsendur fyrir útreiknuðu verði hafi breyst á síðustu mánuðum. Á síðustu misserum hafi búnaðinum sem í upphafi var keyptur verið skipt út fyrir nýjan og verð á búnaði hafi lækkað töluvert.

Þá hyggst Míla bjóða 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd á tilteknum leiðum. Samkvæmt kostnaðargreiningu Mílu verður leigugjald fyrir 100 Gb/s Hraðbrautarsambönd 655 þúsund kr. á mánuði.

Mánaðarverð Hraðbrautarsambanda eru föst og óháð vegalengdum en þau hafa verið í boði hjá Mílu á stöðum innan Höfuðborgarsvæðisins og á Suðurnesjum. Stofngjald fyrir Hraðbrautarsamband helst óbreytt, 107 þús. kr. á tengingu.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 9. nóvember nk. Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is)

Sjá samráðsskjalið:

Frumdrög - Endurskoðun á heildsölugjaldskrá Mílu fyrir Hraðbrautarsambönd á markaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (áður markaður 14)

 

 

Til baka