Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um fyrirhugaða bráðabirgðaákvörðun um frestun verðhækkunar Mílu á 10 Gb/s Hraðbrautarsamböndum

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um fyrirhugaða bráðabirgðaákvörðun um frestun verðhækkunar Mílu á 10 Gb/s Hraðbrautarsamböndum

18. september 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú til meðferðar beiðni Mílu ehf. um að stofnunin taki bráðabirgðaákvörðun þess efnis að hækkun sú sem kveðið var á um á 10 Gb/s Hraðbrautarsamböndum í ákvörðun PFS nr. 24/2015, dags. 12. ágúst sl., taki ekki gildi þann 1. október nk. eins og til stóð.

Fjallað er um heimild PFS til töku bráðbirgðaákvarðana í 11. gr. laga nr. 69/2003 um Póst og fjarskiptastofnun. Þar segir að telji stofnunin nauðsynlegt að taka ákvörðun í einstökum málum án tafar, enda sé hætta á því að dráttur á úrskurði valdi því að réttindi aðila máls fari forgörðum eða hann verði fyrir verulegu fjártjóni, sé stofnuninni heimilt að taka bráðabirgðaákvörðun.

Framangreind ákvörðun PFS nr. 24/2015 fjallar um endurskoðun á gjaldskrá Mílu fyrir Hraðbrautarsambönd. Hraðbrautarsambönd eru leigulínusambönd sem í boði eru á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Um er að ræða sambönd sem í boði eru fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki í heildsölu. Ákvörðunin byggðist á kostnaðargreiningu Mílu frá október 2013 sem var uppfærð í október 2014. Í ákvörðun sinni tók PFS sérstaklega fram að umrædd vara væri í þróun, fastur kostnaður vegna hennar væri hár og fjöldi sambanda skipti því miklu máli varðandi endanlegt verð.

Umræddri beiðni Mílu fylgir uppfærð kostnaðargreining vegna 1 Gb/s og 10 Gb/s sambanda, auk þess sem 100 Gb/s sambönd eru þar kostnaðargreind, en þau hafa fram að þessu ekki verið í boði.

Í beiðni Mílu kemur fram að ástæða hennar sé sú að forsendur fyrir útreiknuðu verði hafi breyst á síðustu mánuðum. Á síðustu misserum hafi búnaðinum sem í upphafi var keyptur verið skipt út fyrir nýjan, verð á búnaði hafi lækkað töluvert og Hraðbrautum með gagnaflutningshraðanum 10 Gb/s hefði fjölgað.

Rökstuðningur Mílu fyrir beiðninni um bráðabirgðaákvörðun í málinu er sá að þar sem kostnaðarlegur grundvöllur fyrirhugaðrar hækkunar sé ekki lengur fyrir hendi þá sé fyrirséð að verð fyrir Hraðbrautir verði of hátt ef hækkunin sem kveðið er á um í ákvörðun 24/2015 tekur gildi. Það myndi leiða til þess að áhugi á vörunni minnkaði og jafnvel að ekki yrðu lengur forsendur fyrir framboði á vörunni á þessu verði. Er það mat Mílu að tekjur af vörunni myndu lækka verulega ef af hækkun verður.

PFS telur það almennt séð jákvætt fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði og neytendur að verð fyrir fjarskiptaþjónustu séu sem lægst, þó að undantekningar geti verið þar á. Í því ljósi hyggst PFS með bráðabirgðaákvörðun heimila Mílu  að falla frá umræddri verðhækkun á 10 Gb/s Hraðbrautarsamböndum, sem koma átti til framkvæmda þann 1. október nk., nema fram komi málefnaleg og rökstudd andmæli markaðsaðila við þessi áform innan neðangreinds frests. Hin fyrirhugaða bráðabirgðaákvörðun mun fela í sér að núverandi verð Mílu munu haldast óbreytt þar til ný ákvörðun PFS á grundvelli uppfærðrar kostnaðargreiningar liggur fyrir. Núverandi gjöld Mílu fyrir Hraðbrautarsambönd eru eftirfarandi:

  • Verð 1 Gb/s sambands er 95.000 kr. á mánuði.
  • Verð 10 Gb/s sambands er 120.000 kr. á mánuði.
  • Stofngjald er 107.000 kr. á tengingu.

Í kjölfar fyrirhugaðrar bráðabirgðaákvörðunar mun PFS síðan taka hina uppfærðu kostnaðargreiningu Mílu til meðferðar með venjubundnum hætti. Áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir í því máli munu ákvörðunardrög fara í innanlandssamráð og samráð við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Búast má við því að sú málsmeðferð geti tekið 2-3 mánuði.

Hafi markaðsaðilar málefnaleg og rökstudd andmæli fram að færa við fyrirhugaða bráðabirgðaákvörðun PFS skulu þau berast stofnuninni á netfangið hulda(hjá)pfs.is, eigi síðar en 28. september nk.

 

 

Til baka