Hoppa yfir valmynd

Norrænar fjarskiptaeftirlitsstofnanir vilja aðlaga regluverk fjarskipta

Tungumál EN
Heim

Norrænar fjarskiptaeftirlitsstofnanir vilja aðlaga regluverk fjarskipta

27. ágúst 2015

Norrænar fjarskiptaeftirlitsstofnanir hafa mótað sameiginlega afstöðu til tillagna framkvæmdastjórnar ESB um framtíðarfyrirkomulag fjarskiptamarkaðarins í Evrópu. Þessar tillögur ESB voru birtar í maí sl. og ganga undir nafninu Digital Single Market Strategy (DSM). Framkvæmdastjórnin leitar nú álits hagsmunaaðila á tillögunum.

Fjarskiptaeftirlitsstofnanirnar telja afar mikilvægt að til staðar sé örugg og stöðug tenging við öll heimili og fyrirtæki í landinu. Einnig er nauðsynlegt að tryggja að til staðar sé háhraðaþjónusta sem veitir lágmarkshraða til að þjóna þörfum allra heimila og fyrirtækja hvort heldur er í þéttbýli eða dreifbýli.

Núgildandi fjarskiptaregluverk þarfnast endurskoðunar. Meta þarf hvar og hvernig eigi að beita slíku regluverki í framtíðinni ásamt því að meta í hvaða tilvikum samkeppnisregluverk dugi eitt og sér. Innleiðing næstu kynslóðar aðgangsneta, með um eða yfir 100 Mbit/sek hraða, og aukin notkun þjónustu yfir Internetið breytir fjarskiptamarkaðnum. Eftir því sem fjarskiptaumferð felst í síauknum mæli í gagnasendingum, dregur úr þörfinni fyrir það að viðhalda hefðbundnum kvöðum regluverksins á talsímaþjónustu og lúkningarverð í talsímaþjónustu. Hins vegar er fyrirséð að áfram verði þörf á að viðhalda regluverki varðandi föst aðgangsnet.

Með það að markmiði að efla nýsköpun og stuðla að nýjum vörum ætti að draga úr reglubyrði á þeim sviðum þar sem það er hægt. Þetta skiptir sérstaklega máli þegar metið er hvort yfirfæra þurfi aðferðarfræði núverandi regluverks yfir á nýja þjónustu Internetsins eða hvort rétt sé að hverfa frá reglusetningu á tilteknum sviðum. Almennri neytendavernd verði beitt á sem víðtækustu sviði og einungis skal viðhalda sértækri neytendavernd vegna fjarskipta þar sem þörf er á.

Umræðu um nýja stefnu framkvæmdastjórnar ESB mun halda áfram og Norrænar fjarskiptaeftirlitsstofnanir munu taka virkan þátt í henni m.a. á vegum hins samevrópska samstarfsvettvangs hjá samtökum evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana (Body of European Regulators for Electronic Communications).

Skjal: Sameiginleg afstaða Norrænna fjarskiptaeftirlitsstofnana til DSM (pdf á ensku).

Til baka