Hoppa yfir valmynd

Lækkun heildsöluverða á símtölum í fastanetinu

Tungumál EN
Heim

Lækkun heildsöluverða á símtölum í fastanetinu

30. júlí 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 19/2015 um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3). Í ákvörðuninni er mælt fyrir um að niðurstaða verðsamanburðar sem stofnunin hefur framkvæmt verði grundvöllur hámarksverða fyrir upphaf og lúkningu símtala. Nánari lýsingu á þeim viðmiðum sem fylgt var við verðsamanburðinn má finna í ákvörðunarskjalinu sjálfu hér fyrir neðan.

Samkvæmt ákvörðuninni skal heildsölugjald fyrir upphaf símtala í föstu talsímaneti Símans vera að hámarki 0,56 kr./mín. Þá skal heildsölugjald fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum vera 0,16 kr./mín. og skal það verð gilda sem hámarksverð hjá Símanum, Vodafone, Nova, Símafélaginu og Hringdu. Núverandi tengigjald er fellt brott þegar hin nýju verð taka gildi.

Um er að ræða töluverða lækkun frá núverandi heildsöluverðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum en þau eru nú 0,63 kr. á mínútu auk 0,62 kr. tengigjalds fyrir hvert símtal.

Hin nýju heildsöluverð taka gildi frá og með 1. janúar 2016.

Ákvörðun PFS um heildsölugjaldskrá byggir á ákvörðun PFS nr. 36/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3). Samkvæmt þeirri ákvörðun skal PFS ákvarða gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum með verðsamanburði.

Á tímabilinu 31. mars til 5. maí sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Athugasemdir bárust frá 365 miðlum ehf. og Símanum hf. Samantekt þeirra athugasemda sem bárust ásamt afstöðu PFS má finna í viðauka II við ákvörðunina hér fyrir neðan.

Þá voru drög að ákvörðuninni send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og öðrum eftirlitsstofnunum á EES-svæðinu til samráðs þann 15. júní sl. Athugasemdir ESA hafa nú borist og gerði stofnunin ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðunardrög PFS. Athugasemdir ESA má finna í viðauka III.

Sjá ákvörðunina í heild ásamt fylgiskjölum:

 Ákvörðun PFS nr. 19/2015 um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (Markaðir 2 og 3)

 

 

Til baka