Hoppa yfir valmynd

PFS birtir ákvörðun um forsendur og niðurstöður kostnaðargreiningar Íslandspósts

Tungumál EN
Heim

PFS birtir ákvörðun um forsendur og niðurstöður kostnaðargreiningar Íslandspósts

16. júlí 2015

Stofnunin birtir nú ákvörðun nr. 17/2015 um forsendur og niðurstöðu Íslandspósts ohf. á fjárhagslegri byrði vegna alþjónustuskyldna samkvæmt nýju LRAIC+ kostnaðarlíkani fyrirtækisins.

Með bréfi, dags. 14. apríl 2014, skilaði Íslandspóstur inn útreikningum um að alþjónustukostnaður félagsins hafi verið 1.191 milljónir á árinu 2013, sem tilheyra ætti kostnaðargrunni einkaréttar.

Í erindinu voru m.a. útlistaðar þær breytingar sem fyrirtækið hygðist gera á þjónustu ef engin væri alþjónustuskyldan, og áhrif þeirra á kostnað fyrirtækisins. Breytingarnar lutu einkum að eftirfarandi aðgerðum:
Breytingar á landpóstadreifingu í dreifbýli.
Breytingar á fyrirkomulagi afgreiðslustaða.
Breytingar á almennri dreifingu fyrirtækisins.

Jafnframt er í erindi Íslandspósts fjallað um kostnað vegna blindrasendinga, gæðamælinga, dagstimplunar og bókhaldslegs aðskilnaðar.

Í ákvörðun stofnunarinnar er m.a. að finna umfjöllun um trúverðugleika viðskiptastefnu félagsins, án alþjónustuskyldna, forsendur og útreikninga Íslandspósts í tengslum við breytingar á landpóstaþjónustu félagsins og að ólíklegt væri að hún myndi ekki hafa áhrif á tekjur félagsins.  Jafnframt benti stofnunin á það samspil sem hún telur að sé á milli landpósta og afgreiðslustaða og mikilvægi landsdekkandi og heildstæðs dreifikerfis. Taldi stofnunin miðað við þær tekjur sem fyrirtækið hafi af þjónustu við þá er njóta þjónustu landpósta að gera megi ráð fyrir að hagkvæmt geti verið að dreifa póstsendingum  einu sinni til þrisvar viku í samræmi við aðstæður á hverjum stað. 

Einnig hafnaði Póst- og fjarskiptastofnun í grundvallaratriðum þeim forsendum og útreikningum félagsins að dreifing alla virka daga sé almennt alþjónustubyrði á félaginu. Sérstaklega á þetta við um fækkun dreifingardaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Að öðru leyti vísast til umfjöllunar stofnunarinnar um einstakar forsendur  og útreikninga Íslandspósts í neðangreindum köflum í ákvörðun stofnunarinnar: 
Um viðskiptastefnu félagsins án alþjónustukvaða í kafla 3.1.
Umflýjanlegan kostnað og brottfallnar tekjur í kafla 3.2.
Erlendan samanburð í kafla 3.3.
Kostnað við landpóstadreifingu í sveitum í kafla 4.1.
Kostnað við afgreiðslustaði í kafla 4.2.
Dreifingu póstsendinga alla virka daga í kafla 4.3.
Flutninga, blindrasendingar, gæðamælingar, dagstimplun og bókhaldslegan aðskilnað í köflum 4.4. til 4.8.

Það er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að Íslandspósti hafi ekki tekist að sýna fram á að sú fjárhæð sem félagið hefur reiknað út sé fjárhagsleg byrði vegna alþjónustuskyldna og eigi óskiptar að tilheyra kostnaðargrunni einkaréttar og endurspeglast þannig í gjaldskrá félagsins. Stofnunin hafnar því forsendum, útreikningum og niðurstöðu fyrirtækisins.

Íslandspóstur hefur krafist þess að yfirstrikaðar upplýsingar séu bundnar trúnaði með vísun til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 69/2014 um Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Krafa fyrirtækisins er nú til skoðunar hjá stofnuninni.

 
Ákvörðun PFS nr.17/2015

Til baka