Hoppa yfir valmynd

Óheimilt að nota bræðisuðu við tengingu ljósleiðara í húskassa

Tungumál EN
Heim

Óheimilt að nota bræðisuðu við tengingu ljósleiðara í húskassa

6. júlí 2015

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 32/2014 þess efnis að Gagnaveitu Reykjavíkur hafi verið óheimilt að bræða saman strengenda ljósleiðaraheimtaugar við innanhúslögn í húskassa.

Upphaf málsins má rekja til kvörtunar Mílu ehf. um að umræddur frágangur fæli í sér aðgangshindrun að innanhúslögn sem bryti gegn 7. gr. reglna Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir, en þær eru settar með stoð 60. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003. Umrætt ákvæði reglnanna mælir fyrir um að strengenda heimtaugar skuli koma fyrir í tengilista sem innanhússlögn tengist með tengisnúru.

Í málinu reyndi m.a. á það hvort framangreindar reglur væru að einhverju marki frávíkjanlegar, þ.e. hvort að húseigandi og ábyrgðarmaður húskassa gæti veitt samþykki sitt fyrir því að nota bræðisuðu við tengingu ljósleiðara og innanhússlagnar. Um þetta segir úrskurðarnefnd:

„Úrskurðarnefnd telur ákvæði 7. gr. reglna PFS nr. 1109/2006 um innanhússfarskiptalagnir ekki heimila slíka undanþágu. Ákvæðið er afdráttarlaust um með hvaða hætti tengja skuli ljósleiðaraheimtaug við innanhússlögn og heimilar húseiganda ekki að samþykkja annað. Óljóst er einnig hvernig slík frávik eigi að vera orðuð og hvert umfang þeirra eigi að vera, m.a. í ljósi ákvæði 5. gr. reglnanna um jafnræði fjarskiptafyrirtækja og frelsis notenda til að velja sér fjarskiptafyrirtæki. Telja verður að PFS, eins og að framan greinir, hafi þegar i reglunum gætt að því jafnvægi sem þarfa að vera milli aðgangskröfu fjarskiptafyrirtæka annars vegar og vernd fjarskipta hins vegar. Sé vilji til efnislegra breytinga telur úrskurðarnefnd að uppfæra beri reglurnar og eftir atvikum greina með skýrum hætti að hvaða leyti og í hvaða tilvikum húseigandi geti samþykkt frávik frá þeim.“

Þrátt fyrir að úrskurðarnefnd hafi staðfest efnislega niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar í þessu ágreiningsmáli þá felldi nefndin úr gildi fyrirmæli stofnunarinnar til Gagnaveitu Reykjavíkur um að lagfæra á eigin kostnað þær tengingar sem sem tengdar höfðu verið með bræðisuðu, samkvæmt sérstökum skilyrðum þar um. Að mati úrskurðarnefndar er um að ræða íþyngjandi úrræði og að tiltaka hefði þurft með skýrum hætti í ákvörðunarorðum, bæði um efni brots og á hvaða lagagrunni viðurlög við brotum byggi.

Í ljósi tilvitnaðra orða úrskurðarnefndar um mögulega endurskoðun á reglum nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir þykir Póst- og fjarskiptastofnun rétt að taka fram að slík vinna er fyrirhuguð af hálfu stofnunarinnar. Við þá endurskoðun hyggst Póst- og fjarskiptastofnun horfa til þeirrar vinnu sem fram fer á vettvangi Staðlaráðs Íslands við endurskoðun á staðlinum ÍST 150 um innanhússfjarskiptalagnir, auk þess að viðhafa náið samráð við viðeigandi fag- og hagsmunaaðila á þessu sviði.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 5/2014

 

Til baka