Hoppa yfir valmynd

Mikil fjölgun kvartana vegna óumbeðinna fjarskipta - breytt verklag PFS

Tungumál EN
Heim

Mikil fjölgun kvartana vegna óumbeðinna fjarskipta - breytt verklag PFS

6. júlí 2015

Í janúar sl. greindi Póst- og fjarskiptastofnun frá því að á undanförnum árum hafi verið mikil fjölgun í kvörtunum er varða óumbeðin fjarskipti aðila sem stunda markaðsstarf sitt með útsendingu tölvupósta, smáskilaboða eða í formi símhringinga. Samantekt stofnunarinnar á fjölda slíkra kvörtunarmála leiddi í ljós að 59% aukning var á slíkum kvörtunum á milli áranna 2011 og 2014, 155% aukning milli áranna 2012 og 2014 og 38% aukning á milli áranna 2013 og 2014.

Með það að leiðarljósi að auka fræðslu og upplýsingagjöf um ákvæði 46. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, gaf stofnunin út leiðbeiningar þar sem farið var yfir hvað telst til óumbeðinna fjarskipta, hvað geti talist vera markaðssetning og hvað bannmerking í símaskrá þýðir. Þá tilkynnti stofnunin jafnframt að hún hygðist breyta verklagi sínu hvað þennan málaflokk varðar með þeim hætti að mál yrðu ekki tekin til formlegrar ákvörðunartöku nema að brot aðila væri ítrekað eða að uppi væri ágreiningur um eðli hinna óumbeðnu fjarskipta. Væri slíkt ekki til staðar í málinum hygðist stofnunin senda aðila sem stendur að baki markaðssetningunni framangreindar leiðbeiningar. Með þessu nýja verklagi taldi stofnunin að unnið væri mikilvægt fræðslustarf til að koma í veg fyrir að viðkomandi aðila gerðist á ný brotlegur við ákvæði fjarskiptalaga sem og neytendavernd væri aukin til muna.

Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú fimm ákvarðanir er varða óumbeðin fjarskipti á grundvelli 46. gr. fjarskiptalaga en um er að ræða síðustu ákvarðanir stofnunarinnar í kvörtunarmálum sem bárust fyrir tilkynningu um breytt verklag í þessum málaflokki.

 

Sjá meira um óumbeðin fjarskipti hér á vefnum:

Frétt okkar frá 22. janúar sl.

Upplýsingar og leiðbeiningar varðandi óumbeðin fjarskipti

Leiðbeiningabæklingur PFS varðandi óumbeðin fjarskipti og beina markaðssetningu (PDF bæklingur sem hægt er að prenta út)

Listi yfir allar ákvarðanir PFS

 

 

 

Til baka