Hoppa yfir valmynd

ESB samþykkir mikilvæga breytingu fyrir neytendur: Ódýrara að nota fartæki innan EES svæðisins frá 2017

Tungumál EN
Heim

ESB samþykkir mikilvæga breytingu fyrir neytendur: Ódýrara að nota fartæki innan EES svæðisins frá 2017

2. júlí 2015

TSM pakkinn svonefndi (Telecoms Single Market) var samþykktur af stofnunum Evrópusambandsins þann 30. júní síðastliðinn. TSM er safn breytingarreglna á fjarskiptalöggjöf innan EES-svæðisins og miðar að enn samræmdara fjarskiptaumhverfi innan Evrópusambandsins og mun hafa áhrif á Íslandi gegnum EES-samninginn. Það sem nú hefur verið samþykkt er efnislegt innihald þessara reglna sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evrópuþingið og Evrópuráðið hafa unnið að um tveggja ára skeið, en formleg útfærsla þeirra verður gerð í kjölfarið.

Helstu áhrif TSM reglnanna á neytendur verða á sviði reikis og internetnotkunar.

Reikisímtöl milli landanna munu heyra sögunni til eftir júní 2017. Það þýðir að þegar íbúar EES svæðisins ferðast innan þess munu þeir geta hringt og tekið á móti símtölum, skeytum og notað gagnamagn á sömu kjörum og gilda á áskrift þeirra heima við, á meðan notkun er innan eðlilegra marka. Útfærsla slíkra notkunarmarka verður unnin nánar í reglunum.

Síðan fyrsta reglugerð um hámarksverð á reiki innan Evrópu tók gildi hafa reikiverð lækkað um 80% og um 90% hvað gagnamagn varðar. Þriðja reglugerð Evrópureikis er nú í gildi og átti að gilda til ársloka 2017, en TSM mun nú taka gildi í stað hennar.

Samkvæmt TSM mun reikiverð innan Evrópu lækka enn frekar í apríl 2016, þar sem einungis verður leyft að setja fimm evrusenta álag á heimaverð vegna reikisímtala sem viðskiptavinur hringir, tvö evrusent má leggja ofan á verð fyrir SMS skeyti og fimm evrusent ofan á hvert MB gagnamagns (umrætt álag er án VSK). Þetta mun verða til umtalsverðrar lækkunar á reikiverðum. Eftir 15. júní 2017 verður ekki leyft að leggja álag á reikinotkun innan EES landanna á meðan notkun er innan eðlilegra marka.

Opið Internet (Nethlutleysi/Net Neutrality) er fest í lög með innleiðingu TSM reglnanna. Öll umferð skal hljóta sams konar meðhöndlun óháð uppruna. Þetta þýðir m.a. að internetþjónustuaðilum verður óheimilt að mismuna efnisveitum, t.d. með lokunum, afkastaskerðingum eða með því krefja efnisveitur um gjöld fyrir flutning efnis þegar viðskiptavinir internetþjónustuaðilans, þ.e. neytendur, tengjast efnisveitum. Einnig verður sett strangt regluverk sem tryggir neytendum að afköst internetþjónustu uppfylli það sem áskriftin segir til um. Þessar reglur munu taka gildi þann 30. apríl 2016.

Fjarskiptaregluverk Evrópusambandsins frá 2009 verður nú endurskoðað í kjölfar þessa samkomulags og mun fjalla um fimm eftirfarandi megin þætti:
• Virkan innri markað fyrir fjarskiptaþjónustu innan ESB.
• Samræmda umsýslu tíðnisviða.
• Fjárfestingu í netum og kerfum
• Jafnan samkeppnisgrundvöll
• Samræmt eftirlit og stjórnsýslu

Í kjölfar þess að ESB innleiðir TSM pakkann í lög og reglur mun hið sama gerast í EES ríkjunum í gegnum EES samninginn. Því má búast við því að sömu, eða samhljóða, reglur verði innleiddar hér á landi með viðeigandi endurskoðun fjarskiptalaga og tengdra reglugerða.

Til baka