Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um gjaldskrá Mílu vegna Ethernetþjónustu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um gjaldskrá Mílu vegna Ethernetþjónustu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

1. júlí 2015

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun varðandi gjaldskrá Mílu fyrir Ethernetþjónustu (MPLS-TP) á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í byrjun maí á síðasta ári kynnti Míla nýja Ethernetþjónustu sem byggir á MPLS-TP tæknibúnaði Mílu og í júlí sl. heimilaði PFS Mílu að hefja veitingu þessarar nýju þjónustu með ákvörðun PFS nr. 15/2014. Á sama tíma var gefin út bráðabirgðagjaldskrá fyrir þjónustuna en breytingar hafa verið gerðar á þeirri gjaldskrá.

PFS hyggst samþykkja að gjaldskrá Mílu fyrir Ethernetþjónustu verði skipt í tvo flokka eftir staðsetningu tengistaða: Staðir á landshringnum og staðir utan landshrings. Í gjaldskránni er ekki sérstakt kílómetragjald líkt og í gjaldskrá fyrir hefðbundnar leigulínur (SDH) en samkvæmt ákvörðunardrögunum fer mánaðargjald Ethernetþjónustunnar stighækkandi í þrem þrepum eftir því hvað tengileiðin er löng. Með gjaldskránni er stigið mikilvægt skref í þá átt að minnka áhrif vegalengdar á verð háhraðasambanda, sem koma landsbyggðinni sérstaklega til góða. Gjaldskráin gildir fyrir þá staði sem tilgreindir eru í ákvörðunardrögunum sem og nýja staði sem Míla bætir seinna við.

Á tímabilinu 23. desember til 10. febrúar sl. fór fram innanlandssamráð um umrædda gjaldskrá Mílu. Athugasemdir bárust frá Fjarskiptum hf. (Vodafone) og voru þær sendar til Mílu til umsagnar. Samantekt þeirra athugasemda sem bárust ásamt afstöðu PFS má finna í viðauka II.

Ákvörðunardrögin eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Eftirfarandi drög að ákvörðun PFS voru send ESA:

Á íslensku

Á ensku

 

Til baka