Hoppa yfir valmynd

Yfirlit PFS vegna bókhaldslegs aðskilnaðar hjá Íslandspósti

Tungumál EN
Heim

Yfirlit PFS vegna bókhaldslegs aðskilnaðar hjá Íslandspósti

30. júní 2015

Með ákvörðun PFS nr. 18/2013, var gerð heildstæð úttekt á bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts, en áður höfðu einstakir þættir þess komið til skoðunar m.a. í tengslum við samþykki stofnunarinnar á gjaldskrá innan einkaréttar. Úttekt stofnunarinnar tók til ársins 2011, en auk þess birtust til samanburðar niðurstöðutölur frá öðrum bókhaldsárum, einkum frá árunum 2009 og 2010.

Megin niðurstaða stofnunarinnar var að kostnaðarbókhald og bókhaldslegur aðskilnaður Íslandspósts byggi á viðurkenndri aðferðarfræði sem sé í samræmi við ákvæði laga nr. 19/2002 um póstþjónustu og reglugerð nr. 313/2005 um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda.

Stofnunin beindi einnig 11 tilteknum fyrirmælum til Íslandspósts í tengslum við kostnaðarbókhald félagsins og hefur fyrirtækið unnið að innleiðingu þeirra síðan.

Eitt af þeim atriðum sem gerð var athugasemd við voru forsendur og útreikningar Íslandspósts á kostnaði vegna alþjónustukvaða, en félagið leiðrétti kostnaðarbókhald félagsins með svokölluðum leiðréttingarfærslum. Í ákvörðuninni kom einnig fram að stofnunin tæki enga afstöðu til þess á þessu stigi hvort kostnaður Íslandspósts af alþjónustu væri meiri eða minni en sú upphæð sem millifærð væri í kostnaðarbókhaldi félagsins.

Íslandspóstur ákvað að fara út í smíði nýs LRAIC kostnaðarlíkans, m.a. til að innleiða þau fyrirmæli sem fram komu í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Líkanið og forsendur þess hafa verið til skoðunar hjá stofnuninni, en það hefur m.a. að geyma nýtt heildarmat á kostnaði vegna alþjónustuskyldu félagsins vegna ársins 2013.

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem koma fram í LRAIC líkani Íslandpósts telur Póst- og fjarskiptastofnun að fullnægjandi upplýsingar liggi nú fyrir um að forsendur hafi verið fyrir a.m.k. 300 millj. kr. leiðréttingarfærslum frá samkeppnisrekstri yfir á einkarétt á árinu 2011 vegna mats á alþjónustubyrði í kostnaðarlíkani (ABC líkani) félagsins, enda náði líkanið ekki að fanga alþjónustubyrði félagsins, sérstaklega vegna kostnaðar við landpóstadreifingu og reksturs afgreiðslunets fyrirtækisins.

Með þessu getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest réttmæti bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts á árinu 2011, þar sem rekstrar- og fjárfestingarkostnaður er staðfærður með viðurkenndum hætti í kostnaðarbókhaldi félagsins.

Af ofangreindu leiðir að bókhaldslegur aðskilnaður og kostnaðarbókhald ÍSP samkvæmt hinu eldra ABC kostnaðarlíkani mun ekki koma til frekari skoðunar af hálfu PFS.
Póst- og fjarskiptastofnun vinnur að úttekt á bókhaldslegum aðskilnaði Íslandspósts fyrir árin 2013 og 2014 og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á árinu.

Sjá nánar:
  Yfirlit PFS vegna bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts á grundvelli ABC kostnaðarlíkans sem notað var til loka ársins 2012 (PDF skjal)

 

Til baka