Hoppa yfir valmynd

Norræn tölfræðiskýrsla: Gagnanotkun í farnetum eykst hratt

Tungumál EN
Heim

Norræn tölfræðiskýrsla: Gagnanotkun í farnetum eykst hratt

23. júní 2015

Í dag kemur út skýrsla sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum hafa tekið saman um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er sjötta árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og Eystrasaltslöndin hafa einnig verið með síðustu ár.

Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.

Áberandi er að fjölgun áskrifta í farnetum hefur nánast staðið í stað í flestum samanburðarlöndunum.

Íslendingar eru eins og áður með flestar fastar háhraða internettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek. eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL og ljósleiðaratenginga hér á landi.

Skýrslan sýnir mikla aukningu í gagnanotkun á farnetum í öllum löndunum.  Þegar eingöngu er litið til Norðurlandanna fimm, sem hafa verið með í samanburðinum frá upphafi þá erum við Íslendingar enn með næstminnstu gagnanotkunina í farnetum.  Það skýrist m.a. af því að útbreiðsla þriðju og fjórðu kynslóða farneta hófst síðar hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. 

Á Íslandi eru einnig fæstar áskriftir í farnetum miðað við höfðatölu. Þar eru Finnar langefstir. Athygli vekur að þegar litið er til áskrifta í farnetum hefur hin mikla fjölgun undanfarinna ára nokkurn veginn stöðvast og fjöldinn staðið í stað í flestum landanna frá 2012. Varðandi notkun farsíma er athyglisvert að Íslendingar og Finnar senda færri SMS en tíðkast í flestum hinna landanna. Aðeins Eistar nota SMS skilaboð minna en Íslendingar og Finnar.

Varðandi þróunina í sjónvarpsdreifingu yfir internetið (IPTV) skera Íslendingar sig úr og eru með langflestar áskriftir miðað við höfðatölu, enda hefur hvorki kapalsjónvarp né sjónvarp um gervitungl verið til staðar í sama mæli hér á landi eins og í samanburðarlöndunum.

Þegar litið er á samanburðinn í heild er athyglisvert að Íslendingar eru fastheldnastir íbúa á samanburðarsvæðinu á heimasíma. Við tölum einnig lengur í heimasíma en aðrir, þótt mínútunum fækki jafnt og þétt. Einnig skera Íslendingar og Svíar sig úr hvað varðar áskriftir að fastlínusíma með IP tækni. Þetta skýrist m.a. af fjölgun ljósleiðaratenginga hérlendis. Svíar eru einnig, miðað við höfðatölu, með langflestar háhraða nettengingar sem ná 100 Mb/s hraða eða meira.  Þar erum við Íslendingar í þriðja sæti.

Sjá skýrsluna í heild (á ensku):
Telecommunication Markets in the Nordic and Baltic Countries 2014 (PPT skjal, 3,57 MB)

Tölfræðina má einnig skoða í gagnagrunni hennar sem geymdur er hjá systurstofnun PFS í Svíþjóð, Post- og telestyrelsen: http://statistik.pts.se/PTSnordic/NordicBaltic2014/

Hér á vefnum má einnig nálgast allar samanburðarskýrslurnar frá upphafi á einum stað.

Til baka