Hoppa yfir valmynd

Samstarf fjarskiptaeftirlitsstofnana á Norðurlöndum í formlegan farveg

Tungumál EN
Heim

Samstarf fjarskiptaeftirlitsstofnana á Norðurlöndum í formlegan farveg

7. maí 2015

Norrænar eftirlitsstofnanir á sviði fjarskipta hafa um árabil haft með sér óformlegt samstarf á ýmsum sviðum. Nú hefur verið gert samkomulag um að setja samstarfið í formlegri farveg en hingað til og munu stofnanirnar framvegis skiptast árlega á um hafa formennsku í samstarfinu. Þetta var ákveðið á sameiginlegum fundi stofnananna sem haldinn var í Helsinki dagana 4. og 5. maí sl. Ákveðið var að forstjóri finnsku eftirlitsstofnunarinnar FICORA, Asta Sihvonen-Punkka færi með formennsku í samstarfinu á þessu ári.

Á fundinum var rætt um það sem efst er á baugi í eftirlits- og markaðsmálum á sviði fjarskipta á Norðurlöndum, en margt er sameiginlegt með fjarskiptamörkuðum landanna, svo sem mikil útbreiðsla breiðbands og mikil notkun farnetsþjónustu. Einnig var rætt um áform Evrópusambandsins um einn sameiginlegan fjarskiptamarkað, regluverk á Norðurlöndunum um viðbrögð og varnir varðandi áföll í fjarskiptainnviðum og tíðnimál, ekki síst stöðu 700 MHz tíðnisviðsins í hverju landi. Á alþjóðavísu hefur verið ákveðið að þetta tíðnisvið skuli notað fyrir háhraða aðgangs- og farnetsþjónustu og er miðað við nóvember í haust. Öll Norðurlöndin nema Ísland og Noregur hafa tekið ákvarðanir um tímasetningar á slíkri ráðstöfun 700 MHz sviðsins, en í báðum löndunum er gert ráð fyrir ákvörðun síðar á þessu ári. Hér á landi stendur nú yfir samráð við hagsmunaaðila um nýja tíðnistefnu PFS þar sem m.a. er fjallað um 700 MHz tíðnisviðið.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu um samstarf norrænu stofnananna leggur formaðurinn áherslu á samlegðaráhrif slíks samstarfs: „Það er kallað eftir mun öflugra samstarfi milli fjarskiptaeftirlitsstofnana Norðurlandanna og við sjáum þar mikla möguleika til að nýta góða reynslu Norðurlandanna sem innlegg í hina evrópsku umræðu“ segir Asta Sihvonen-Punkka formaður samstarfsvettvangs norrænna eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta.

 

 

Til baka