Hoppa yfir valmynd

Breytt framkvæmd gjaldskráreftirlits vegna pósts

Tungumál EN
Heim

Breytt framkvæmd gjaldskráreftirlits vegna pósts

4. maí 2015

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 4/2014 fellt úr gildi ákvörðun PFS nr. 16/2014 um hækkun á gjaldskrá Íslandspósts. Félagið kærði ákvörðun PFS til ógildingar vegna þess hluta hækkunarbeiðninnar sem ekki fékkst samþykkt. Niðurstaða úrskurðarnefndar felur aftur á móti í sér að ákvörðun PFS er felld úr gildi í heild sinni. Byggist sú niðurstaða á því að PFS hafi farið út fyrir valdheimildir sínar til gjaldskráreftirlits með því að mæla fyrir um tiltekna verðhækkun og með því samþykkja hækkunarbeiðni Íslandspósts að hluta, í stað þess að hafna beiðninni að öllu leyti vegna þess að forsendur væru ekki fyrir hendi til að styðja hana að fullu.

Með þessum úrskurði er horfið frá margra ára framkvæmd varðandi afgreiðslu PFS á gjaldskrár- og skilmálabreytingum hjá Íslandspósti. Ákvarðanir stofnunarinnar í þeim efnum hafa áður verið staðfestar af úrskurðarnefnd, án þess að hún hafi haft frumkvæði að því að ógilda þær á fyrrnefndum forsendum, t.d. í málum nr. 5/2012 og 3/2013.

Afleiðing úrskurðarins nú er m.a. sú að PFS þarf að yfirfara verklag sitt varðandi afgreiðslu á beiðnum Íslandspósts um heimildir til breytinga á skilmálum og gjaldskrá fyrir póst innan einkaréttar. Þrátt fyrir þetta er það álit stofnunarinnar að síðasta ákvörðun hennar, nr. 2/2015 frá 20. febrúar s.l., um samþykki á hækkun á gjaldskrá Íslandspósts innan einkaréttar, uppfylli kröfur úrskurðarnefndar. Verð samkvæmt gjaldskrá Íslandspósts fyrir póst innan einkaréttar haldast því óbreytt.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar í heild:

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 4/2014 vegna kæru Íslandspósts ohf. á ákvörðun PFS nr. 16/2014

 

 

Til baka