Hoppa yfir valmynd

Fjölgun óumbeðinna fjarskipta – aukin fræðsla og breytt verklag

Tungumál EN
Heim

Fjölgun óumbeðinna fjarskipta – aukin fræðsla og breytt verklag

22. janúar 2015

Með örum tækniframförum verður sífellt auðveldara að beina auglýsingum, kynningum og hvers konar markaðssetningu beint til einstaklinga,  m.a. í gegnum síma, tölvupóst og SMS sendingar. Slík markaðssetning getur valdið neytendum ónæði og ama en margir vilja vera lausir við áreiti af þessu tagi. Því var sett ákvæði í fjarskiptalög til að vernda neytendur gegn óumbeðnum fjarskiptum en um er að ræða 46. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Tilgangur ákvæðisins er að takmarka það ónæði sem notendur fjarskiptaþjónustu geta orðið fyrir vegna beinnar markaðssetningar með hjálp fjarskiptatækni en meginreglan er sú að óheimilt er að senda tölvupóstsendingar eða önnur óumbeðin fjarskipti í markaðslegum tilgangi nema viðtakandi hafi gefið fyrirfram samþykki sitt fyrir að móttaka slíkar sendingar.

Þrátt fyrir framangreint lagaákvæði og þá almennu reglu sem þar birtist berast stofnuninni fjöldi kvartana á ári hverju vegna óumbeðinna fjarskipta frá neytendum. Á töflunni hér að neðan má sjá samantekt á fjölda mála á árunum 2011-2014 en þar má sjá að þessi málafjöldi fer stigvaxandi. Þannig varð 59% aukning á milli áranna 2011 og 2014, 155% aukning milli áranna 2012 og 2014 og 38% aukning á málafjölda milli áranna 2013 og 2014.

Í ljósi framangreinds er það mat stofnunarinnar að brýn þörf sé fyrir því að upplýsa og leiðbeina þeim sem hyggjast notast við beina markaðssetningu með fjarskiptatækni svo að slík framkvæmd sé viðhöfð innan ramma laganna og að sama skapi verndi neytendur gegn óumbeðnum fjarskiptum. Af þessum sökum hefur PFS ákveðið að gefa út leiðbeiningar um hvað telst til óumbeðinna fjarskipta, auk þess sem farið er stuttlega yfir það hvað felst í beinni markaðssetningu og hvað bannmerking í símaskrá þýðir. Byggist hefti þetta á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003 og fjarskiptalögum nr. 81/2003. Enn fremur hefur verið stuðst við upplýsingar frá Þjóðskrá www.skra.is og Persónuvernd www.personuvernd.is.

Með hliðsjón af framangreindu telur PFS nauðsynlegt að leggja áherslu á fræðslu fremur en að taka öll mál sem stofnuninni berast til formlegrar ákvarðanatöku. Þó er gert ráð fyrir að til ákvörðunartöku komi ef um endurtekin brot aðila er að ræða, eða ef uppi er ágreiningur um eðli samskiptanna. PFS hyggst því haga verklagi sínu með þeim hætti að í þeim tilvikum sem stofnuninni berst kvörtun gegn aðila, sem ekki hefur áður borist kvörtun gegn, þá mun stofnunin senda viðkomandi aðila þessar leiðbeiningar með það að markmiði að upplýsa viðkomandi. Með því er stuðlað að því að viðkomandi aðili gerist ekki brotlegur gegn fyrrnefndu ákvæði í framtíðinni. Telur stofnunin að fyrirkomulag þetta geti verið til þess fallið að draga úr fjölda kvartana og ákvörðunum sem og ónæði í garð þeirra neytenda sem ekki óska eftir slíkum óumbeðnum fjarskiptum.  

Leiðbeiningar um óumbeðin fjarskipti og beina markaðssetningu

Til baka